„Hver stendur að baki? Ekki opinberlega. Það er reyndar ágætur maður sem stýrir rannsókninni sem kom á föstudaginn og tók fingraför og er með þær upplýsingar sem við búum yfir. Ég held hann ætli að taka þetta alvarlega og ég trúi því að það sé þannig,“ sagði Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, við viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 í morgun, um innbrotið í bíl hans og inn á ritstjórnarskrifstofur Mannlífs fyrir helgi.
Reynir telur sig hafa upplýsingar um hverjir voru að verki en hann getur ekki sagt frá því opinberlega. Þeim upplýsingum hafi hann hins vegar komið til lögreglunnar. Kom fram í viðtalinu að Reynir vonast til að málið upplýsist í dag.
Reynir segist ekki trúa því að auðmaðurinn Róbert Wessmann hafi brotist inn en Róbert hefur birt yfirlýsingu þess efnis að hann hafi þar hvergi komið nálægt. Mannlíf og Róbert hafa staðið í deilum undanfarið vegna fréttaflutnings Mannlífs af málum Róberts. Nýlega krafðist erlend lögmannstofu fyrir hönd Róberts þess að Mannlíf léti af hendi gögn sem tengjast honum. Segir Reynir þær kröfur vera mjög óvenjulegar og ekki eiga sér neina lagastoð heldur settar fram til að ógna litlum fjölmiðli.
Reynir benti á að innbrotið í bíl hans og innbrotið inn á ritstjórnarskrifstofur Mannlífs hafi verið þaulskipulögð aðgerð. Sterkur grunur leikur á að menn hafi í langan tíma fylgst með heimili og ferðum Reynis og vitnar nágranni hans meðal annars um mann sem hafi setið klukkutímum saman fyrir utan heimili Reynis.
Þá vekur athygli að mennirnir sem brutust inn í bílinn og fundu þar lykla að ritstjórnarskrifstofum Mannlífs vissu nákvæmlega hvar þau húsakynni var að finna og að lyklarnir gengju að þeim, en ritstjórn Mannlífs er mjög illa merkt. Þar tóku menn eina tölvu traustataki, komust þar inn í ritstjórnarefni miðilsins og eyddu öllu efni út af vefnum. Tók sú aðgerð um fimm klukkustundir en vefurinn lá niðri í sjö til átta klukkustundir að henni lokinni.
Reynir segir hafa orðið fyrir því sem ritstjóri DV að meðlimir Hells Angels samtakanna hafi ráðist inn á ritstjórnarskrifstofur blaðsins og tekið hann kverkataki. Þar hafi hins vegar verið um að ræða uppdópaða menn og einum þeirra hafi hann komið í fangelsi í tvo mánðuði.
„Það var allt önnur uppákoma, þar voru menn fylltir af dópi. Ég veit ekkert hvað þessir menn eru færir um að gera,“ sagði Reynir og benti á að aðgerðin hefði verið yfirveguð og þaulskipulögð.
„Þeir eyða í það dögum og vikum að plana þetta og eru fyrir utan heimili mitt. Hvað eru þeir færir um?“ sagði Reynir. „Ég veit ekkert hvað þessir menn eru færir um að gera. Þeir stálu meira að segja hundabúrinu mínu og einhverjum gömlum gönguskóm.“
Reyni var bent á að Mannlíf hefði reitt marga fleiri til reiði en Róbert Wessmann með umfjöllun sinni og kannaðist hann við það. „Ég hef tekið margan slaginn, ég hef fengið mikið hól og mér hefur verið bölvað,“ sagði Reynir, sem ætlar ekki að láta þessar hremmingar verða til að hrekja sig úr blaðamennsku.
Aðspurður hvort hann teldi að Róbert Wessmann tengdist málinu með einhverjum hætti sagði Reynir: „Ég má ekkert segja um það. Ég ætla ekkert að lýsa hann saklausan eða sekan en það er augljóst í tímalínunni hvað er að gerast, það er herjað á okkur um gögn og svo gerist þetta í kjölfarið.“