Reynir Traustason og vefur sem hann ritstýrir, Mannlíf, urðu fyrir árás glæpamanna í gær. Mbl.is greinir frá.
Brotist var inn í bíl Reynis þar sem hann stóð á bílastæði við Úlfarsfell, og lyklum að ritstjórnarskrifstofum Mannlífs var stolið.
DV ræddi við Reyni um málið og segir hann aðspurður að ekki hafi verið virkt þjófavarnarkerfi á staðnum. „Mín tölva var lokuð en þeir komust í turn þarna og eyða öllum fréttum og öðru efni.“
Aðspurður um hvort Reynir viti hverjir standi að baki árásinni þá segist hann hafa sínar grunsemdir en hann viti það þó ekki fyrir víst. Undanfarið hefur Mannlífi verið krafið um að láta tiltekin gögn af hendi.
„Þetta eru prófessjónal menn, þetta er þaulskipulagt og nær alveg frá Úlfarsfelli. Þeir ráðast inn í bílinn minn, ná lyklunum af mér, koma síðan hingað og eru í nótt að eyða gögnum,“ segir Reynir.
Hann segir að Mannlíf fari fljótt í gang aftur. „Lögreglan er hérna og við erum bara að sópa upp glerbrotum. Ég reikna með að vefurinn fari bara upp eftir hálftíma. Við endurheimtum vonandi mest af þessu, við erum með hörkuduglega menn í því.“