Björn Þorláksson, blaðamaður á Fréttablaðinu, á ógleymanlegar minningar um rokkgoðið Meatloaf, minningar sem varla eiga sinn líka, því Björn tróð upp með goðinu í Reiðhöllinni í Víðidal á stórtónleikum Meatloaf árið 1987.
Meatloaf lést í gær, 74 ára að aldri. Hann gerði garðinn frægan með ógleymanlegum rokkballöðum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.
Björn var í akureysku poppsveitinni Stuðkompaníið sem var geysivinsæl á þessum tíma. Einhvern veginn atvikaðist það svo að Meatloaf bað um Stuðkompaníið sem upphitunarband á tónleikunum. Meðlimir sveitarinnar urðu hins vegar veðurtepptir og lentu í Reykjavík örskömmu fyrir tónleikana eftir mjög erfitt flug. Þá tilkynnti umboðsmaður Meatloaf þeim að atriði þeirra myndi falla út þar sem búið væri að hljóðprófa, stilla upp og gera allt klárt fyrir tónleika stórstjörnunnar.
„Gamli sveitakallinn í mér og eitthvert markaleysi verður til þess að ég fæ þá flugu í höfuðið að við neitum að gefa þetta eftir. Við vorum komnir hingað suður með erfiðu flugi, þetta átti að verða stór stund og maður var svo ungur og vitlaus að átta sig ekki á því að þarna væri um að ræða eitt stærsta góð tónlistarsögunnar. Þannig að ég krefst þess að við fáum fund með Meatloaf og það var orðið við þeirri kröfu,“ segir Björn.
Var þeim boðið inn í búningsherbergi Meatloaf. „Mig minnir að hann hafi verið í sminki en hann stendur á fætur og segir „Hi, Meat“. Svona var kveðjan,“ segir Björn og meðlimir Stuðkompanísins kynntu sig líka.
„Við segjum að við höfum verið bókaðir sem upphitunarband og við höfum ekki haft stórn á veðrinu. Við værum hingað komnir og okkur tjáð að við gætum ekki hitað upp. Það væri algjörlega óásættanlegt. Við viljum athuga hvort ekki sé hægt að endurskoða þessa ákvörðun. Ég man þetta ekki allt skýrt lengur en mig minnir að ég hafi verið svo óforskammaður að hóta því að þetta yrði ekki gott pr fyrir Meatloaf, að ungt strákaband væri afbókað með þessum hætti. Að ég hafi beitt hann hálfgerðum fjölmiðlaþrýstingi.“
„Ekki veit ég hvað varð til þess að Meatloaf kom með þessa hugmynd, að við yrðum bara kallaðir á svið og myndum troða upp með honum og bandinu hans,“ segir Björn og lofar mjög viðmót Meatloaf.
„Þetta var yndislegur kall, það voru engir stjörnustæalr í honum, hann var frábær í viðkynningu. Þarna gaf hann sér tíma, korter fyrir tónleika, þar sem 8.000 brjálaður aðdáendur biðu hans, til að ræða þetta mál af yfirvegun og leysa það.“
Svo fór að strákahljómsveitin að norðan var látin bíða átekta á hliðarsviði eftir því að stíga á svið og troða upp með Meatloaf og hans mönnum.
Björn segir að Meatloaf hafi keyrt sig svo út á sviðinu að hann hafi reglulega þurft að fara baksviðs og fá aðhlynningu. Ekki hafi hjálpað til að hann hafi verið mjög feitur á þessum tíma.
„Hann hljóp út um allt eins og brjálaður maður og rak höfuðið hvað eftir annað í hljóðnemastafíið. Þegar löng sóló voru í gangi eða eitthvað þannig kastaði hann sér niður og fékk súrefni og aðra aðhlynningu. Þetta horðum við á, guttarnir að norðan, og vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið.“
Svo fór að meðlimir Stuðkompanísins fengu ábendingu um að koma á svið og komu þeir fram í nokkrum lögum með hljómsveitinni.
„Það var ekkert plan. Þarna stóð ég á sviðinu og hafði ekki einu sinni hljóðfæri. Það hjálpaði til að rauða albúmið með Meatloaf var ein fyrsta platan sem ég eignaðist og hana hafði ég hlustað á í drep sem ungur strákur í Mývatnssveit og kunni lögin utan að. Ég greip síðan tambúrin og dansaði með gogo-stelpunum á sviðinu.“
Síðan rann upp eitthvert eftirminnilegasta augnablikið á ævi Björns, er hann söng með sjálfum Meatloaf á sviðinu:
„Eitthvað leiðir til þess að ég er kominn í fremstu röð með honum þarna, hann tekur utan um mig, við syngjum saman og svitinn af honum skellur á mér eins og brimskafl. Ég hugsaði með mér að þetta væri stórkostlegasta augnablik ævi minnar. Ég rúllaði mér síðan á gólfinu, hlæjandi niður af sviðinu, mér fannst það einhvern veginn flottara en að stíga af sviði með venjulegum hætti, og ég man að trommleikarinn stóð upp og sagði: „What the fuck was that!““
Eftir tónleikana tók við partý en Björn man ekki ýkja vel frá því. Hann man þó eftir glefsum af samtölum við þessa merku tónlistarmenn.
Þess má geta að um 8.000 manns sóttu þessa tónleika í Reiðhöllinni sem þóttu mjög vel heppnaðir. Því miður á Björn ekkert myndefni frá kvöldinu enda gerðist þetta fyrir daga snjallsímans og sífelldrar skrásetningur á viðburðum lífsins.