Kona fædd árið 1993 var í gær sakfelld í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir samtals 17 brot, þar af 13 umferðarlagabrot og fjögur hegningarlagabrot.
Umferðarlagabrotin snerust um akstur undir áhrifum slævandi lyfja.
Meðal hegningarlagabrota konunnar voru þau að hún tók bíl traustataki og ók honum undir áhrifum lyfja. Þá sagði hún rangt til nafns við handtöku eftir eitt brot sitt, þóttist vera önnur kona, og var hún því ákærð fyrir rangar sakagiftir.
Einnig var konan ákærð fyrir tíu þúsund króna þjófnað úr versluninni New Yorker í Kringlunni og fyrir að stela skráningarmerkjum af bíl og setja á sinn eigin bíl.
Konan játaði brot sín skýlaust.
Hún var dæmd í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi og svipt ökuleyfi í fimm ár. Hún þarf síðan að greiða vel yfir tvær milljónir króna í sakarkostnað.