Það vakti mikla athygli í gær þegar Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, vakti athygli á því að þeir fasteignaeigendur sem ekki velja sér sjálfir raforkusala séu sjálfkrafa skráðir í viðskipti við N1 en þurfi þó að greiða mun hærra verð heldur en ef þeir hefðu sjálfir óskað eftir viðskiptunum.
Þetta er mögulegt vegna glufu í regluverki. Í kjölfar greinarinnar varð uppi fótur og fit. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem athygli hefur verið vakin á málinu, en Stundin vakti athygli á því í desember.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir N1 beita ógeðfelldum blekkingum. Hann ritar harðorða grein um málið þar sem hann kallar eftir viðbrögðum lífeyrissjóðanna sem eigi hlut í móðurfélagi N1, Festi.
„N1 er sakað réttilega um ógeðfelldar blekkingar þar sem fyrirtækið hefur selt viðskiptavinum“ rafmagn í gegnum svokallaða þrautavaraleið á 73% hærra verði en því sem auglýst er.“
Vilhjálmur telur N1 hafa nýtt sér glufu í regluverkinu til að soga til sín „um þúsund „viðskiptavini“ í hverjum mánuði á grundvelli þess að þeir séu með lægsta verðið þegar raunin er sú að þeir eru með hæsta verðið, ef neytandinn skráir sig ekki formlega í viðskipti hjá þeim.“
Vilhjálmur minnir á að N1 tilheyri Festi, félaginu sem eigi og reki Krónuna, Elko auk N1.
„Og hverjir skyldu vera meirihlutaeigendur í Festi, jú það eru lífeyrissjóðir launafólks sem eiga upp undir 70% í Festi. Hugsið ykkur að það eru lífeyrissjóðir launafólks sem eiga um 70% í N1 sem sakað er réttilega um að blekkja neytendur með svívirðilegum hætti.“
Veltir Vilhjálmur því fyrir sér hvort að stjórnendur lífeyrissjóðanna ætli að bregðast við þessum ásökunum, en Vilhjálmur telur að málið kalli á hörð viðbrögð.
„Eigendur lífeyrissjóðanna eiga og verða að gera skýlausa kröfu um að þeir stjórnendur hjá Festi sem bera ábyrgð á þessum blekkingum verði látnir gjalda fyrir það.“
Vilhjálmur telur að framferði N1 hljóti að vekja spurningar um hvort önnur fyrirtæki Festi beiti álíka viðskiptaháttum. Lífeyrissjóðirnir megi ekki láta svona viðgangast í nafni þess að fullnægja arðsemiskröfu.
„En munum að það eru neytendur sem þurfa að greiða fyrir þessa arðsemisgræðgi sem virðist vera í sumum tilfellum verið náð fram með því að svíkja og blekkja neytendur enda sýnir þetta mál að viðskiptasiðleysi stjórnenda Festi hefur náð nýjum botni.“
Formaður Neytendasamtakanna, Breki Karlsson, sakaði N1 hreinlega um blekkingar í samtali við RÚV. Um sé að ræða verðlagningu sem komi hvergi fram í verðskrá og telur Breki að þeir sem hafi orðið fyrir þessum viðskiptaháttum eigi rétt á endurgreiðslu.
Orkustofnun hefur einnig gefið út að stofnunin ætli að beita sér gegn því að N1 haldi þessu áfram og hefur beint þeim tilmælum til raforkusölufyrirtækja að þau selji ekki rafmagn til viðskiptavina sem komi í gegnum svonefnda þrautavaraleið, eða þeir sem ekki velja sér raforkusala sjálfir, á hærra verði en lægsta birta verði. Stundin greindi frá því í gær að að N1 hafi fengið til sín tæplega 18 þúsund viðskiptavini á grundvelli þessa kerfis, en það var tekið upp um mitt ár 2020.
Orkustofnun er sem stendur með málið til rannsóknar eftir formleg kvörtun barst vegna viðskiptahátta N1 Rafmagns um miðjan desember.
Rétt er að taka fram að N1 rafmagn býður sem stendur upp á lægsta verðið á raforku. Hins vegar gildir það aðeins ef viðskiptavinir hafa sjálfir óskað eftir að skipta við fyrirtækið, en ekki ef þeir hafa sjálfkrafa verið skráðir þangað. Viðskiptavinir geta því sótt um sjálfir og þar með fengið lægra verðið.
Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, skrifaði grein um málið í gær þar sem hann svaraði fyrir sakirnar. Þar bendir hann á að því fylgi aukinn kostnaður þegar viðskiptavinir komi inn í gegnum þrautavaraleið.
„Fjöldi viðskiptavina er óþekkt stærð á hverjum tíma fyrir sig. Leiddi það til þess að N1 Rafmagn þurfti að jafnaði að kaupa raforku fyrir þessa einstaklinga á skammtímamarkaði og jafnvel jöfnunarmarkaði. Á þeim mörkuðum eru verð hærri og hefur fyrirtækið því neyðst til að rukka þrautavaraviðskiptavini í samræmi við það, því annars væri tap á viðskiptunum.“
N1 fái engar upplýsingar um viðskiptavinina sem komi inn með þessum hætti annað en kennitölu og heimilisfang og því „er ekki hægt að benda þeim á að skrái þeir sig í bein viðskipti til N1 Rafmagns, fáist uppgefið raforkuverð samkvæmt gjaldskrá. Persónuverndarlög gera slík samskipti óheimil og þar með eru hendur N1 Rafmagns bundnar.“
N1 hafi ekkert á móti því að fyrirkomulagið verði tekið til endurskoðunar og munu styðja hverja þær aðgerðir sem ýtt geti undir að fólk velji sér raforkusala sjálft.
„En um leið verður ekki séð að hægt sé að skylda sölufyrirtæki raforku til þess að selja raforku með tapi. Í því efni eru keppinautar fyrirtækisins okkur líklega sammála.“
Hins vegar gætu margir velt fyrir sér hvort það sé virkilega svo að þegar N1 hefur kennitölur og heimilisfang, hvort að persónuverndarsjónarmið komi í veg fyrir að hægt sé að senda þeim hefðbundinn bréfpóst, eða hvort ekki sé hægt að benda viðskiptavinum á að skrá sig á reikningum frá fyrirtækinu sem væntanlega berist þeim í heimabanka, ef ekki í bréfpóstinum líka. Eins gætu menn velt því fyrir sér hvort að sömu persónuverndarsjónarmið komi í veg fyrir að fyrirtækið komi sér í samband við viðskiptavini sem komu í gegnum þrautavaraleiðir, lendi þeir í vanskilum.