„Hafi einhverjir verið í vafa um að Íslendingar gætu veitt Dönum harða keppni án margra af sínum stærstu nöfnum, þá urðu þeir klókari,“ segir TV2 í Danmörku um leik Íslands og Danmerkur á EM í handbolta en Danir unnu leikinn 28:24. Lykilmenn vantaði í íslenska liðið vegna Covid-smita. Segir í umsögninni um leikinn að danska liðið hafi lengi átt í erfiðleikum með íslenska liðið í leiknum.
Danski miðillinn segir að frammistaða Mathias Gidsel og markvarðaskipti snemma í fyrri hálfleik hafi ráðið úrslitum í leiknum. Gidsel skoraði 9 mörk í leiknum og Kevin Möller, sem kom inn á um miðjan fyrri hálfleik, varði 14 skot.
Danirnir segja að sitt lið hafi stigið stórt skref inn í undanúrslit með þessum sigri og hægt sé að tryggja það á laugardaginn.