Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi formaður SÁÁ, sem féll í hallarbyltingu innan samtakanna árið 2020 og lét af formennsku, sendir stjórn SÁÁ tóninn, í nýrri Facebook-færslu. Tilefnið eru ásakanir Sjúkratrygginga Íslands, SÍ, um að SÁÁ hafi innheimt tilhæfulausa reikninga fyrir oftalin viðtöl við sjúklinga, upp á 170 milljónir króna. Málið er komið inn á borð héraðssaksóknara.
SÁÁ sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem kæra SÍ er hörmuð. Í yfirlýsingunni er kvartað undan framgöngu deildarstjóra eftirlitsdeildar SÍ, Ara Matthíassonar, en hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri SÁÁ:
„Framkvæmdastjórn SÁÁ harmar þann farveg sem málið er komið í. Af hálfu SÁÁ hefur verið reynt að skýra hvernig verklagi var háttað, en í bréfi Ara Matthíassonar, deildarstjóra eftirlitsdeildar SÍ, sem dagsett er 29. desember 2021 og birt er á visir.is, er ekki tekið tillit til þeirra skýringa.“
Þórarinn gagnrýnir SÁÁ harkalega fyrir þetta og segir:
„Framkvæmdastjórn SÁÁ starfsárið 2020-2021 er skipuð eftirtöldum:
Einar Hermannsson – Formaður
Héðinn Eyjólfsson
Anna Hildur Guðmundsson
Gróa Ásgeirsdóttir
Sigurbjörg A. Þór Björnsdóttir
Þráinn Farestveit
Sigurður Friðriksson – varaformaður
Frosti Logason
Svala Ísfeld Ólafsdóttir
Þetta fólk er nú að djöflast á Ara Matthíassyni sem er að vinna vinnuna sína hjá SÍ, nefna nafns hans og kenna honum óbeint um sín brot á lögum SÁÁ og landslögum“