TV2 í Danmörku er með áberandi umfjöllun um magnaðan sigur Íslendinga á Ungverjum á EM í handbolta. Ísland vann eins marks sigur og komst áfram í milliriðil með tvö aukastig.
Í fyrirsögn segir að gestgjöfunum hafi mistekist fyrir framan 20 þúsund áhorfendur. Í lok leiksins hafi þeir horft tómeygir á möguleika sína á sæti í milliriðli hverfa á meðan Íslendingar hafi stigið stríðsdans af gleði. Birt er mynd úr áhorfendastúkunni þar sem sést að einn íslenskur fáni sést innan um haf af ungverskum fánum. Segir í myndatexta að Íslendingar hafi verið tilbúnir í undirtölu í leiknum innan vallar og utan.
Þess má geta að Danir verða fyrstu andstæðingar okkar liðs í milliriðli. Reyndar er ofmælt hjá danska miðlinum að Ungverjar séu úr leik því þeir gætu mögulega komist áfram ef Portúgal vinnur Holland í kvöld.
Þá segir að brjáluð stemning hafi verið í höllinni sem hafi verið troðfull af brjáluðum handboltaunnendum og fyrir löngu hafi verið uppselt á leikinn. Íslendingar hafi hins vegar höndlað það mjög vel að vera í minnihluta.
Þá segir að leikurinn hafi verið mikið drama sem hafi nánast skrifað sig sjálft fyrirfram.