Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir, hefur óskað eftir því við skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar að fasteign í hans eigu, Andahvilft, Hvestu í Ketildölum í Arnarfirði, verði skráð sem íbúðarhús í stað sumarhúss. Bæjarins Besta greindi frá.
Tómas keypti umrætt hús árið 2017 en kaupsamningi og afsali var ekki þinglýst fyrr en 2020. Var kaupverðið, samkvæmt þinglýstum skjölum, þrjár krónur.
Húsið var byggt árið 1903 en það var í mjög lélegu ásigkomulagi þegar Tómas eignaðist húsið og tók að sér að flytja það á núverandi stað og endurbyggja það að fullu.
„Þar er nú vatnsból með rennandi vatni, rotþró og varmadæla heldur húsinu heitu allt árið. Ég nota það allt árið um kring, enda get ég unnið þaðan heimafrá þar sem í húsinu er kominn ljósleiðari,“ segir í erindi Tómasar skv. BB.is.
Þá kemur fram að skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að orðið verði við erindinu. Það bendir því flest til þess að hjartaskurðlæknirinn þjóðþekkti verði orðinn vestfirðingur áður en langt um líður.