Landsréttur staðfesti á föstudag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir konu sem ákærð hefur verið fyrir stórfelldan innflutning á kókaíni. Fíkniefnin voru falin undir gólfi í svörtum bíl sem fluttur var til landsins með Norrænu. Konan skal sæta gæsluvarðhaldi til 8. febrúar.
Í ákæru er hinu meinta afbroti lýst þannig:
„Stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa dagana 17. – 22. september, staðið að innflutningi á 3.979,89 g af kókaíni, sem hafði 61-76% styrkleika, ætluðum til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Þann 17. september sendu ákærðu svarta […] bifreið með skráningarnúmerinu […] frá […] til Íslands með flutningaskipinu […], en fíkniefnin fundust falin í fjórum pakkningum í gólfi bifreiðarinnar við tollskoðun á Íslandi þann 20. september. Lögregla skipti út fíkniefnunum fyrir gerviefni og sóttu ákærðu bifreiðina þann 22. september á tollsvæði […] í […] og fékk hún þá skráningarnúmerið […]. Ákærði Y settist í ökumannssæti bifreiðarinnar en ákærða X í framsæti bifreiðarinnar og ók ákærði Y bifreiðinni að heimili þeirra við […] í Reykjavík. Daginn eftir, þann 23. september, fór ákærði Y í bifreiðina og sótti gerviefnin sem voru þar falin og var hann handtekinn skömmu síðar á […] við […], með tvær pakkningar af gerviefni í bakpoka. Ákærða X var handtekin á heimili þeirra síðar sama dag.“
Úrskurði Landsréttar og héraðsdóms má lesa hér