Ragnar Freyr Ingvarsson, fyrrverandi yfirlæknir Covid-göngudeildarinnar, telur að þær hertu sóttvarnaaðgerðir sem nú hafa tekið gildi séu ekki líklegar til að skila tilætluðum árangri. Ómíkron afbrigði COVID hafi líklega markað vatnaskil í faraldrinum og nú sé kominn tími á nýja nálgun í baráttuni.
Þetta kemur fram í færslu Ragnars á Facebook í dag. Þar fer hann yfir stöðuna og hvers vegna hann telur aðgerðir sóttvarnayfirvalda komnar út af sporinu.
„Vatnaskil í COVID faraldrinum?
Bara á sex vikum hefur Omikron-afbrigðið náð heimsyfirráðum. Og gerbreytt öllu. COVID er gjörólíkur sjúkdómur þeim sem við þekktum bara fyrir nokkrum vikum. Ættu viðbrögð okkar að breytast?“
Ragnar bendir á að nú séu fleiri að smitast á degi hverjum heldur en áður í faraldrinum en á sama tíma leggist færri inn á sjúkrahús.
„Færri leggjast inn vegna COVID, þó nokkrir leggjast inn með COVID. Sárafáir enda á gjörgæslu. Innlagnartíðni vegna Omikron á Íslandi er að lægri en í Danmörku og margfalt lægri en af delta afbrigði veirunnar.
Og þetta er ekki bara tilfinning, þetta er stutt af rannsóknum.“
Staðan á Landspítala í gær var sú að 45 lágu inni vegna COVID. Hluti þeirra sé laus úr einangrun og margir þeirra sjúklinga liggi inni á spítalanum vegna annarra læknisfræðilegra vandamála þó þeir séu smitaðir af COVID.
Hertar aðgerðir séu ekki líklegar til að bera árangur, enda sé nú faraldurinn mestur meðal barna, unglinga og ungmenna í menntaskólum og háskólum.
„Fyrir meira en viku síðan birtist í fjölmiðlum niðurstöður spálíkans sem hefur verið lagt til grundvallar stórra ákvarðana. Kallað var eftir útgöngubanni í samfélaginu. Á föstudag voru settar fram nýjar takmarkanir byggðar á þessari spá.
Þær takmarkanir sem lagðar eru á – munu ólíklega skila tilætluðum árangri, enda er faraldurinn mestur meðal barna, unglinga og ungra fullorðina í menntaskóla og háskóla. Og líklega mun útbreiddari en við höldum.“
Ragnar bendir á að víða erlendis séu menn farnir að endurskoða nálgun á sóttvarnir í ljósi breyttra aðstæðna og tíminn sé kominn að Ísland geri það líka.
„Víða erlendis verið að endurskoða nálgun í ljósi breyttra aðstæðna. Víða í kringum okkur er verið að skilgreina viðbrögð sín upp á nýtt í ljósi nýrra forsendna, m.a. á hinum Norðurlöndunum. Verið er að endurhugsa skimanir, sóttkví, viðbrögð almennings og á heilbrigðisstofnunum. Tímabært er að við gerum slíkt hið sama.“
Ragnar telur að Ísland sé á leið út af sporinu og mikilvægt sé við komum okkur aftur á rétta braut – fyrr frekar en síðar.
„Við þurfum að þrauka í gegnum harðar samfélagsaðgerðir enn á ný. Að þessu sinni erum við á leið út af sporinu. Mikilvægt er að við komum okkur á rétta braut fyrr en seinna.
Loksins sést til sólar.“