Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Hefur blaðið eftir Trausta Þórissyni og Ásdísi Erlu Gísladóttur, kúabændum á Hofsá í Svarfaðardal, að þau muni kaupa minna af áburði í ár en í fyrra til að reyna að bregðast við verðhækkununum en þau eru með 60 kýr. Þrátt fyrir minni kaup þá greiða þau 2,5 milljónum meira fyrir áburð í ár en í fyrra en þau myndu kaupa sama magn og í fyrra væri upphæðin 3,3 milljónir fyrir utan virðisaukaskatt.
Trausti sagðist telja einboðið að þetta ástand kalli á að áburðarverksmiðja verði reist hér á landi því ef meðalbú þurfi að greiða tveimur til þremur milljónum hærra verð á ári fyrir áburð sé ljóst að mjög fáir ráði við það.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, sagði að 700 milljónir hafi verið settar í stuðning til bænda vegna áburðarkaupa í fjárlögum ársins. Hann sagðist lengi hafa verið þeirrar skoðunar að hefja þurfi framleiðslu á áburði aftur hér á landi. Það sé hægt að nota græna orku í framleiðsluna og jafnvel megi horfa til útflutnings.