Aðalmeðferð í máli gegn Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni, sem kallaður hefur verið stjörnunuddarinn, hófst í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Fréttablaðið fjallaði um málið.
Um er að ræða fimmtu ákæruna gegn Jóhannesi sem tekin er fyrir af domstólum. Hann var í fyrra dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum konum, þar sem fjórar ákærur voru teknar fyrir í einu. Landsréttur þyngdi þann dóm svo í 6 ár.
Lesa meira: Refsingin yfir stjörnunuddaranum Jóhannesi Tryggva þyngd
Jóhannes fór fram á að þinghald yrði lokað en brotaþoli í málinu barðist sjálf fyrir því að þinghald yrði opið. Landsréttur samþykkti að þinghald skyldi vera opið en afar sjaldgæft er að það sé opið í kynferðisbrotamálum.
Þar sem Jóhannes er í sóttkví gaf hann skýrslu í gegnum fjarfundabúnað. Við upphaf þinghalds sagðist hann ætla að nýta sér rétt sinn til að tjá sig ekki um sakargiftir umfram það sem fram kemur í skýrslu lögreglu um málið.
„Ég get sagt það með fullri vissu að ég kom ekki við brjóst eða kynfæri þessarar stúlku á óviðeigandi hátt,“ sagði hann fyrir dómi í dag.
Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, saksóknari hjá Héraðssaksóknara, sækir málið en hún spurði Jóhannes fyrir dómi hvort hann kannaðist við orð sem hann lét falla í skýrslutöku hjá lögreglu. „Nei sko, þú veist, ég vinn við að … Ég hef farið inn í leggöng til að laga vandamál en ég fer bara ekki inn í leggöng til að vera fullnægður, sko,“ sagði Jóhannes í skýrslutökunni.
„Kannastu við þetta?“ spurði Dagmar eftir að hafa lesið upp úr skýrslunni. Jóhannes svaraði játandi, hann sagðist kannast við að hafa farið inn í leggöng kvenna sem leitað hafa til hans vegna ýmissa vandamála. Hann sagðist þó ekki hafa gert það í tilviki brotaþolans.