Fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan hefur sagt upp störfum hjá RÚV en hann hefur á undanförnum árum séð um fréttaskýringaþáttinn Kveik.
Helgi, sem hefur starfað hjá RÚV frá árinu 2006, segir frá uppsögn sinni í færslu sem hann birti inni á lokuðu vefsvæði starfsmanna RÚV. Kjarninn vakti athygli á færslunni en í henni segir Helgi hafa metið það sem svo að nú væri rétti tíminn til að takast á við nýjar áskoranir á nýjum stað.
„Ég ætla þó ekki að halda því fram að atburðarrás undanfarinna missera hafi ekki haft nein áhrif á að ég yfirleitt fór að velta þessum möguleika fyrir mér. Ég skil þó við RÚV sáttur við allt og alla, vitandi það að öll höfum við lært og munum draga lærdóm af því sem gengið hefur á,“ segir Helgi í færslunni.
Þá segist hann gera sér grein fyrir því að undanfarna mánuði hafi aðrir reynslumiklir starfsmenn RÚV einnig hætt störfum. Hann segir það hafa gert ákvörðun sína um að hætta erfiðari.
Sjá einnig: Orðið á götunni:Rúvarar flýja ofan af Efstaleiti í unnvörpum – Verður Helgi næstur?
„Að lokum vil ég segja þetta: Ríkisútvarpið og starfsfólk þess á ekki að þurfa að stilla upp í vörn. Alls ekki. Ríkisútvarpið á að sækja á. Innan þessarar stofnunar er ótæmandi bunki af hæfileikum, dugnaði og elju sem skilar sér til fólks á hverjum degi. Og þannig á það að vera áfram. Auk þess að vera fræðandi og skemmtilegt, á Ríkisútvarpið líka að vera ögrandi og erfitt. Hlustendum og áhorfendum er enginn greiði gerður með því að sitja undir kurteisishjali við skoðanir þess og heimsmynd öllum stundum. Þannig hefur það ekki verið og má ekki verða.“