Margrét Pétursdóttir birti í dag opið bréf til Sunnulækjarskóla á Selfossi eftir að henni barst til eyrna að skólinn ætlaði að nota íslensku þáttaröðina Brot sem námsefni fyrir 6. bekkinga. Margrét bendir á að í þáttunum sé að finna hópnauðgun og annað ofbeldi.
Margrét leggur átta spurningar fyrir stjórnendur skólans, meðal annars þessa:
„Vitið þið að þetta er hópnauðgunarvídjó sem ungmennin horfa á með bekkjarfélögum sínum. Ekki horfa, hlusta og sjá aðra horfa á það. Það á líka að horfa á myndband af þolanda hópnauðgunarinnar af þessari sömu nauðgun lýsa nauðguninni. Börn sem eru 12 ára eiga líka að horfa á íslenskt fólk í sjónvarpinu lýsa kerfisbundnum nauðgunum á ungum drengjum og grófu líkamlegu ofbeldi gegn börnum sem framið er af fólkinu sem á að sýna þeim umhyggju?“
Birgir Edwald, skólastjóri Sunnulækjarskóla, svaraði bréfi Margrétar í dag.
Birgir bendir á að þetta námsefni sé fyrir 7. bekk en ekki 6. bekk og þættirnir séu bannaðir innan 12 ára. Börnin hafi því aldur til að horfa á þættina. En í ljósi gagnrýninnar hafi verið ákveðið að hætta við þessi áform:
„Við val á á viðfangsefni til að nota sem kveikju í þessari vinnu var horft til þess að þegar þættirnir Brot voru sýndir í Sjónvarpi RÚV voru þeir gulmerktir og sagðir ekki við hæfi barna yngri en 12 ára. Eins og áður sagði er verkefnið unnið á vorönn í 7. bekk þegar nemendur árgangsins hafa náð 12 ára aldri.
Það er okkur mikilvægt að eiga gott samstarf við heimili nemenda enda er það ein af forsendum árangurs í námi barna.
Við höfum nýverið fengið athugasemd við val á myndefninu. Í framhaldi af þeirri athugasemd munum við leggja framgreinda kennsluáætlun til hliðar og nálgast þau hæfniviðmið sem tilheyra henni með öðrum hætti.“