Sjónvarpsþættirnir Verbúðin hafa slegið rækilega í gegn enda þykja þeir varpa raunsönnu ljósi á íslenskt samfélag á níunda áratugi síðustu aldar. Nöturlegur raunveruleiki í íslenskum sjávarútvegi á þessum árum voru tíð vinnuslys og áhorfendur Verbúðarinnar hafa ekki farið varhluta af því.
Eitt svakalegasta atriði þáttanna, hingað til, var þegar Pétur, sem leikinn er af Sveppa, missir höndina eftir blóðugt slys í hausingavél. Atriðið vakti upp sterkar minningar hjá Ragnhildi L. Guðmundsdóttur, náms- og starfsráðgjafa, sem árið 1981, þá aðeins 17 ára gömul, lenti í slysi í sambærilegri vél á vertíð í Sandgerði.
Eins og fjölmargir aðrir Íslendingar fylgist Ragnhildur spennt með þáttunum en óneitanlega hafði atriðið með slysinu áhrif á hana og erfiðar minningar rifjuðust upp. „Öll svona slys rifja upp mitt slys. Þetta var mikið áfall fyrir 17 ára stúlku að lenda í slíku,“ segir Ragnhildur.
Hún segir að slysið sem karakter Sveppa hafi virkað hálfóraunverulegt á hana að því leyti hversu snyrtilega hendin skarst af en að sama skapi hafi verið mjög raunverulegt hvernig blóðið frussaðist taktfast út. „Mér þótti þetta frekar ógeðslegt atriði en það vakti samt ekki upp sterkar tilfinningar utan minninga um hvenær þetta gerðist hjá mér. Miðað við endurhæfingarferlið sem ég þurfti að ganga í gegnum fannst mér kannski mest óraunverulegt hversu karakterinn var fljótt kominn aftur til vinnu eins og ekkert hefði í skorist,“ segir Ragnhildur kímin.
Hún segist afar ánægð með útlit þáttanna og þann anda sem að svífur þar yfir vötnum – hugurinn leiti óneitanlega til þessa tímabils sem hún upplifði sjálf. Vegna ungs aldurs bjó hún ekki í verbúðinni en fór þangað í partý um helgar. Hún gekk í flest verk í salthúsinu og vann meðal annars í uppskipun, á hjöllunum, í skreið, saltfisk og í aðgerð. Þá vann hún einnig við að seila hausa og husingavél þar sem slysið örlagaríka átti sér stað.
Skömmu eftir kaffipásu þann 4. maí 1981 festist hægri hendi Ragnhildar skyndilega í hausingavélinni. „Ég sá bara blóðið spýtast út með púlstakti,“ segir hún.
Í losti hélt hún undir vinnuhanskann sem fylltist af blóði og hafði rænu á því að halda fingrunum uppi svo að þeir slitnuðu ekki frá en þeir héngu tættir á smá skinnlufsu í hanskanum. „Það var eins og í hryllingsmynd að finna fingurna iða í hanskanum. Vinnufélagi minn sem var að seila haus fyrir neðan vélina vissi strax að eitthvað alvarlegt hafði gerst og hann kom hlaupandi á eftir mér með bandspotta og batt um handlegginn til að stöðva blóðrásina,“ segir Ragnhildur.
Heimilislæknir í Sandgerði kom strax á vettvang og setti spelku utan um hendi Ragnhildar og fljótlega kom sjúkrabíll á vettvang sem að brunaði með hana í bæinn. Þegar á spítalann var komið tók yfirlæknir á móti henni og sagði henni að búa sig undir það að höndin yrði ekki á þegar hún myndi vakna eftir yfirvofandi aðgerð. „Ég man að ég hvæsti á hann en síðan varð ég mjög hissa þegar ég vaknaði og sá fingurna gægjast út úr umbúðunum,“ segir Ragnhildur.
DV fjallaði um slysið hræðilega árið 2020 en um tímamótaaðgerð var að ræða því að Rögnvaldur Þorleifsson, læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina á Ragnhildi, framkvæmdi þennan dag fyrstu ágræðslu útlims á Íslandi. Um afar vandasama aðgerð var að ræða því græða þurfi saman örsmáar æðar og taugar til þess að Ragnhildur hefði sem mest gagn af hendinni til framtíðar.
Eðli málsins samkvæmt var um langt og strangt bataferli að ræða hjá Ragnhildi. Þó að síðar hafi hún þurft að gangast undir fleiri aðgerðir til að laga höndina aðeins til þá gekk upphaflega aðgerðina vel. Ragnhildur fékk talsverða tilfinningu í höndina og hefur alla tíð haft mikinn stuðning af henni. Aðlögunarferlið var þó talsvert og meðal annars þurfti unga stúlkan að læra að skrifa upp á nýtt með vinstri hendinni.
Þó að um mikið líkamlegt áfall hafi verið að ræða voru afleiðingar slyssins ekki síst andlegar hjá Ragnhildi. Engin áfallahjálp var í boði og hennar mestu vonbrigði voru að flestir vinirnir úr vinnunni hurfu á braut. „Maður áttaði sig á því að þeir sem maður taldi sem vini sína voru í raun aðeins samferðamenn sem unnu og skemmtu sér saman en þegar á móti blés voru þeir ekki til staðar. Ég þurfti að fara í endurhæfingu og þar með passaði ég ekki lengur inn í hópinn því ég gat ekki djammað eins og hinir krakkarnir. Ég held líka að margir hafi ekki vitað hvernig þeir ættu að nálgast mig eftir slysið,“ segir Ragnhildur.
Á þessum árum var vinnueftirlit og – öryggi ekki upp á marga fiska en sem betur fer hefur mikið vatn runnið til sjávar í þeim efnum. Slys eins og það sem Ragnhildur lenti í, sem náði augum þjóðarinnar út af tímamótaraðgerðinni, var liður í því að málin fóru að þróast til betri vegar.
Hendi Ragnhildar skarst nánast alveg af í slysinu Myndir: Læknablaðið/LSP