Árni Þórður Sigurðsson, sonur Sigurður Þ. Ragnarssonar, veðurfræðings og bæjarfulltrúa Miðflokksins í Hafnarfirði, er enn í öndunarvél á Landspítalanum. Árni þjáist af líffærabilun.
Þetta kemur fram á Vísir.is.
„Hann er enn í sama ástandi, í lífshættu og allt það en þeir segja doktorarnir að góð von sé ennþá. Einn læknirinn orðaði það svo: við ætlum að ná honum í gegnum þetta. Það var hughreystandi setning þó maður sé meðvitaður um alvarleikann,“ segir Sigurður í samtali við Vísi.
DV ræddi við Sigurð á annan í jólum. Þar þakkaði hann starfsfólki Landspítalans fyrir góð störf. „Ég vil koma sérstöku þakklæti til hjúkrunarfólks og gjörgæslulækna á gjörgæslu Landspítalans við Hringbraut. Þeir hafa hringt um leið og eitthvað er ekki eins og það á að vera og haldið okkur upplýstum um lífshorfur og annað. Mig langar að koma sérstöku þakklæti til þess fólks sem búið er að vinna um jólin til að halda í honum lífinu.“
Sjá einnig: Sonur Sigurðar í lífshættu á Landspítalanum – „Það er mjög gott að finna stuðninginn“
Sigurður segir í samtali við Vísi að jól og áramót hafi verið mjög erfið:
„Þetta nagar mann inn að beini. Maður er orkulaus en maður er að reyna að halda fókusi að lágmarksafli, sinna því sem maður getur sinnt. Annað verður að bíða um sinn. Allt sem getur beðið bíður.“