Bólusetningar barna á aldrinum 5 til 11 ára hófust í Laugardalshöll kl. 12 á hádegi í dag. Þangað var foreldrum barna í þessum aldursflokki boðið að koma með börn sín til bólusetninga gegn Covid-19.
Þessar bólusetningar munu standa yfir í Laugardalshöll til og með 13. janúar.
Að sögn sjónarvotts var löggæsla mjög sýnileg á staðnum. Börnin voru ekki bólusett í stóru rými líkt og tíðkast hjá fullorðnum heldur var þeim boðið í minna herbergi þar sem eitt barn var bólusett í einu. Börnin fengu verðlaun eftir bólusetninguna og gátu valið um límmiða og sápukúlur.
Á meðan börnin voru að jafna sig eftir bólusetninguna var flutt fyrir þau atriði úr uppsetningu Þjóðleikhússins á Kardimommubænum, eins og sjá má á myndinni fyrir neðan.
Boðað hafði verið til mótmæla gegn bólusetningum barna á staðnum en að sögn ljósmyndara DV, Ernis Eyjólfssonar, sem tók meðfylgjandi myndir á vettvangi, varð ekki vart við neitt slíkt og bólusetningarnar hafa farið friðsamlega fram til þessa. Ber ekkert á mótmælum.