Hannesína Scheving, hjúkrunarfræðingur og framhaldsskólakennari, eyddi jólunum á Tenerife en hún tapaði rúmum 300 þúsund krónum rétt á eyjunni rétt áður en hún kom aftur til Íslands. Hannesína segir frá þessu í samtali við Fréttablaðið en það voru óprúttnir sölumenn sem höfðu af henni þessa fjárhæð.
„Ég er nú sjálf mjög passasöm kona með allt svona en lét ginnast þarna,“ segir Hannesína við blaðamann Fréttablaðsins og útskýrir svo hvað gerðist.
Hún hafði ætlað sér að kaupa vatn en byrjaði þá að tala við sölumenn sem voru að sýna henni síma sem henni leist ágætlega á þar sem hann var nokkuð ódýr. Þegar hún lýsti yfir áhuga sínum á símanum var henni boðið inn í verslunina af sölumanni en þar sá hún spjaldtölvu á 150 evrur sem henni fannst vera flott.
Hannesína segir sölumanninn hafa verið afar sannfærandi. „Þá segist hann hafa unnið á Íslandi, kunni nokkur orð í íslensku og hafi kallað sig Atla þegar hann starfaði hér. En það þurfi maður að koma frá Google og setja íslensku inn í hana,“ segir hún en eftir það spurði maðurinn Hannesínu hvenær hún færi heim frá Tenerife.
Hún svarar því og sagðist fara til Íslands miðvikudaginn 5. janúar. Maðurinn segist þá ætla að vera í bandi við hana klukkan 16 á þriðjudeginum. „Svo á þriðjudegi hringir hann og vísar okkur í þessa búð. Þar situr þessi Carlos sem segist vinna hjá Google,“ segir Hannesína.
Maðurinn sagðist vera búinn að setja tölvuna upp fyrir hana en að hún þyrfti að greiða fyrir áskrift af sjónvarpsefni til að fá tölvuna. Verðið fyrir áskriftina var 24 evrur í ákveðið marga mánuði en maðurinn sagði Hannesínu að hún gæti hætt að borga fyrir áskriftina þegar hún væri komin til Íslands, hann þyrfti þó fyrst að fá kortið hennar.
„Ég var treg til en þá kemur í ljós að ekki er hægt að gera þetta nema borga alla upphæðina á staðnum,“ segir hún en þegar upp var staðið voru sölumennirnir búnir að hafa af henni 2.100 evrur, rúmlega 300 þúsund í íslenskum krónum.
Hannesína óttaðist um eigið öryggi og vildi komast í burtu þegar þangað var komið við sögu. „Ég var drulluhrædd ein þarna og þetta tók um 4 klukkustundir. Ég vildi bara losna þarna út,“ segir hún. Þá hafði hún lítinn tíma til að bregðast við þessu fúski þar sem hún var að fara til Íslands daginn eftir.
Fljótlega eftir að Hannesína yfirgaf verslunina lokaði hún kortinu sem notað var í versluninni. Hún segir að eftir á að hyggja hefði hún átt að vita betur.
„Auðvitað átti ég ekki að taka þátt í þessu en þeir vissu alveg hvað þeir voru að gera. Ég lá andvaka nóttina á eftir og fór í gegnum ferlið og áttaði mig á hvernig þeir gerðu þetta. Þeir eru mjög slungnir og halda manni í raun í heljargreipum. Mér stóð heldur ekki á sama þarna á tímabili. Og þetta byrjaði allt á því að ég ætlaði bara að fá mér vatn,“ segir hún.