Morgunblaðið skýrir frá þessu. Haft er eftir Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að börnin verði tekin þvert á allan aldur, ósk hafi verið sett fram um það til að koma í veg fyrir að þau þekki hvert annað. Þannig verði öll börn fædd í janúar tekin inn klukkan tólf, febrúarbörn klukkan hálf eitt og svo koll af kolli.
Húsinu verður skipt upp þannig að elstu börnin verða í salnum sem flestir þekkja og þar geta foreldrar eða forsjáraðilar setið með sínu barni. Í minni rýmum verði yngri börnin og börn sem eru viðkvæm bólusett.
Ragnheiður bendir forsjáraðilum á að tilkynna strax við skannana við innganginn ef barn er viðkvæmt og þá verði því beint í sérstakt úrræði þar sem það verður bólusett í ró og næði.
Laugardagurinn var nýttur til að undirbúa bólusetningarnar, stólum raðað og lítið svið sett upp þar sem leikarar frá Þjóðleikhúsinu munu kíkja við.