Bjarni Már Magnússon, lögfræðingur, er loks laus úr sóttkví. Það væri í sjálfu sér ekki fréttnæmt nema vegna þeirrar staðreyndar að Bjarni Már hefur mátt dúsa í sóttkví síðan 10. desember og náði því rétt tæpum mánuði í þeim fjötrum. Lögfræðingurinn greinir frá þessum tímamótum á Twitter-síðu sinni og grínast með það að Íslandsmet sé líklega fallið.
„Þá er maður kominn úr meira en fjögurra vikna samfelldri sóttkví og hefur væntanlega slegið Íslandsmet í flokki samfelldrar sóttkvíar þríbólusettra án þess að smitast. Það er allaveganna eitthvað,“ skrifar Bjarni.
Bjarni Már tjáði sig um raunir sínar í viðtali við Vísi á dögunum. Dóttir hans greindist með Covid-smit þann 10. desember síðastliðinn en síðan smituðust börn hans koll af kolli. Sjálfur er hann þríbólusettur en slapp við að smitast af sjúkdóminum. Við hvert nýtt smit á heimilinu núllstilltist sóttkví Bjarna Más og þannig endaði hann í tæplega mánaðar sóttkví.
Blessunarlega hafi börn hans þó verið með lítil sem engin einkenni en reikna má með því að fjölskyldan sé frelsinu fegin á nýju ári.
Þá er maður kominn úr meira en fjögurra vikna samfelldri sóttkví og hefur væntanlega slegið Íslandsmet í flokki samfelldrar sóttkvíar þríbólusettra án þess að smitast. Það er allaveganna eitthvað. pic.twitter.com/oAKCIHRddf
— Bjarni Már Magnússon (@BjarniMM) January 9, 2022