Stormurinn sem reið yfir landið um miðja nýliðna viku ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum. Töluvert tjón varð víða um land. Sagt var frá því að sjór hefði gengið á land í Grindavík og olli hamagangurinn meðal annars skemmdum í frystihúsi Vísis. Þá kastaðist sjór og stórgrýti upp á golfvöll Grindvíkinga og olli þar miklu tjóni.
Í dag birti svo Vegagerðin myndir af Nesvegi, sem liggur frá Grindavík vestur að Reykjanesvita. Sjá má að klæðningin flettist af veginum í óveðrinu. Inni á vefsíðu Vegagerðarinnar er haft eftir Valgarði Guðmundssyni, eftirlitsmanni Vegagerðarinnar að hann hafi aldrei séð annað eins brim. „Þetta var hálf óhugnanlegt,“ segir hann þar.
Nú í gærkvöldi birti Grindvíkingurinn Sigrún Harpa Harðardóttir svo myndir af fjárhúsi fjölskyldunnar í Grindavík á Facebook. Fjárhúsið stendur sjávarmeginn við áðurnefndan Nesveg. Ljóst er af myndunum að þar hefur orðið einnig orðið stórtjón.
Í færslunni óskar Harpa eftir afgangs byggingarefnum fyrir fjölskylduna að nota til þess að koma húsinu aftur í stand sem fyrst. „Átt þú bárujárn sem þig vantar að losna við? Við lentum illa í því með fjárhúsin okkar í flóðinu sem var í Grindavík um daginn og erum að reyna að koma húsinu í þokkalegt stand svo við getum tekið kindurnar okkar heim aftur og fyrst og fremst vera með heilt hús þegar sauðburður byrjar,“ skrifar Harpa.
Í samtali við DV segir Sigrún tjónið gríðarlegt. „En þetta er líka ákveðið andlegt áfall. Langafi minn byggði þetta hús. Amma og afi eiga þetta núna og við barnabörnin og makar erum að sinna þessu,“ útskýrir Sigrún.
Sigrún segir þau hafa verið vöruð við að þetta gæti gerst daginn fyrir storminn og að þau hafi því getað komið kindunum í skjól til Ómars í Bjarmalandi, bónda Grindavík. „Þetta gerðist líka fyrir tveimur árum, þá gekk svona sjór á land og við vorum þá líka vöruð við, en það varð ekki svona mikið tjón þá,“ segir Sigrún.
Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum hefur mikið gengið á þessa nótt. „Þetta var ekki bara sjór,“ segir Sigrún. „Þetta er alls konar. Steinarnir sem köstuðust inn voru svo stórir að þeir mölbrutu burðarbitana í húsinu. Steinakastið olli mestum skemmdum, en svo var líka svo mikill þrýstingur frá sjónum að það er bara eins og sprengju hafi verið kastað þangað inn.“
Sigrún segir viðbrögðin við Facebook færslunni hafa verið góð. „Það er maður sem ætlar að gefa okkur bárujárn og svo hafa aðrir verið að hafa samband.“ Færsluna má sjá hér að neðan. Aðspurð hvernig best sé að hafa samband við hana, fari svo að lesendur DV kunni að geta lagt henni lið, segist Sigrún alltaf hafa símann á sér og að hún fylgist með Facebook skilaboðum.
Ljóst er af samtali blaðamanns við Sigrúnu að stutt sé í jákvæðnina, þrátt fyrir hörmungarnar. Aðspurð hvort hægt sé að sjá ljósið í svona aðstæðum svarar Sigrún ákveðið: „Við höldum jákvæðninni í gangi. Það þýðir ekkert annað.“
Von er á öðrum suðaustan hvelli í kvöld og búist við 20-28 metrum á sekúndu með rigningu. Gular veðurviðvaranir eru í gildi fyrir kvöldið og er fólk varað við að vera á ferli á þekktum hviðasvæðum.