Sema Erla Serdar, aðgerðasinni og formaður Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, varar eindregið við kaupum á tilteknum tegundum veganfæðis á Twitter og segir að verið sé að ljúga að neytendum.
„Nú þegar Veganúar er kominn á fullt er ástæða til að minna á að Hälsans Kök er ísraelsk framleiðsla í eigu fyrirtækis sem starfar á landránsbyggðum og hagnast með beinum hætti á þjóðarmorði á palestínsku þjóðinni,“ segir Sema í færslu á Twitter í gær og birtir myndir af vörum Hälsans Kök og skjáskot af færslu ísraelska hersins þar sem fram kemur að her Ísraelsmanna sé „mest Vegan her í heimi.“
„Ekki taka þátt í veganwashing Ísraela. Fullt annað til!“ bætir Sema svo við.
„Veganwashing“ er vafalaust nýtt hugtak í orðabókum flestra, en á vefsíðunni Urban Dictionary er orðið skilgreint sem sagnorð og merkir að nýta sér stöðu grænkera og baráttu þeirra í samfélaginu og vinsældir þeirra með það að markmiði að ná fram tilteknum pólitískum áherslum eða markmiðum, án þess þó að styðja raunverulega baráttu veganfólks.
Sema heldur áfram:
Veganwashing er hluti af ímyndarherferð ísraelskra stjórnvalda sem er svo ótrúlega árangursrík að Hälsans kök er markaðsett/auglýst sem sænsk framleiðsla. Það er bara logið að neytendum.
Færslu Semu má sjá hér að neðan í heild sinni.
Veganwashing er hluti af ímyndarherferð ísraelskra stjórnvalda sem er svo ótrúlega árangursrík að Hälsans kök er markaðsett/auglýst sem sænsk framleiðsla. Það er bara logið að neytendum. pic.twitter.com/WM5YBEnfPA
— Sema Erla (@semaerla) January 7, 2022
Hälsans Kök er flutt inn af Danól sem er í eigu Ölgerðarinnar. Fyrirtækið er vissulega sænskt og ber sænskt nafn. Það er hins vegar eitt fjölmargra matvælafyrirtækja í eigu svissneska risans Nestlé. Fyrirtækið er stærsta matvælaframleiðslu og sölu fyrirtæki heims.
Inni á heimasíðu Hälsans Kök kemur hins vegar, vissulega, fram að hluti varanna séu framleiddar á svokölluðu kibbutz í Ísrael. Kibbutz eru ísraelsk samyrkjubú sem eru oft, en ekki alltaf, reist á landnemasvæðum gyðinga innan svæða Palestínumanna samkvæmt landamærunum fyrir Sex daga stríðið árið 1967. Þau landamæri eru gjarnan notuð til þess að marka línuna milli svæða Palestínumanna á Vesturbakkanum og Ísraels.
„Flestar vörur okkar koma frá Krupka í Tékklandi,“ segir á heimasíðu Hälsans Kök. Aðrar vörur koma frá kibbutzinu Lohanei HaGetaot, sem er í Haifa í norðurhluta Ísrael. Það svæði tilheyrir hins vegar ekki hernumdu svæðum Vesturbakkans og raunar segir Hälsans Kök á heimasíðu sinni ekki framleiða neinar vörur á hernumdum svæðum. „Þú getur alltaf lesið í hvaða landi varan er framleidd á bakhluta pakkningarinnar,“ segir þar jafnframt.