Hörður Sigurjónsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 3. febrúar vegna gruns um fjölmörg brot gegn börnum. Mbl.is greinir frá þessu.
DV og aðrir fjölmiðlar hafa birt fjölmargar fréttir af brotum Harðar sem lýsa sér í afar grófri áreitni við börn í gegnum samskiptaforritið Snapchat þar sem Hörður hefur klæmst við börn niður í 11 ára aldur, ausið yfir þau klámyrðum og sent þeim klámfengnar myndir, meðal annars myndir af kynfærum sínum.
Hann var handtekinn í vor vegna gruns um brot gegn fimm börnum en látinn laus eftir yfirheyrslu. Meint áframhaldandi brot hans voru tilkynnt í sumar og haust en eftir að hann virtist hafa brotið gegn mörgum börnum í sama skólanum seint í nóvember og foreldrar þeirra tóku sig til og kærðu til lögreglu, komst skriður á mál hans aftur, hann var handtekinn og úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald snemma í desember. Það gæsluvarðhald hefur nú verið framlengt um fjórar vikur.
Samkvæmt frétt mbl.is er búið að taka skýrslu af yfir 40 manns vegna þessara mála og eru flestir á barnsaldri.
„Það sem hefur vantað er umræða milli foreldra, þau vita ekki af þessu, þau vita bara að hann er að senda einhverjum börnum en þau vita ekki að það eru þeirra börn,“ sagði móðir 13 ára stúlku sem Hörður áreitti í nóvember, í viðtali við DV 1. desember. Í kjölfar þessa atviks tóku foreldrar barna í sama skóla sig saman, ræddu við börn sín og kærðu mörg brot Harðar í kjölfarið til lögreglu.
Hörður er 65 ára gamall. Sem fyrr segir er hann fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður. Hann hefur áður komið við sögu lögreglu, bæði hér á landi og erlendis, fyrir bæði kynferðisbrot og fíkniefnabrot. Hann var einn af þeim sem reyndu að hitta 13 ára gamla tálbeitu í fréttaskýringaþættinum Kompás árið 2006.
Í nóvember árið 2009 mátti síðan lesa á Vísir.is frétt undir fyrirsögninni „Kompásperri handtekinn með fíkniefni í Argentínu.“ Þar kemur fram að Hörður hafi verið handtekinn á alþjóðaflugvellinum í Buenos Aires með rúmlega fimm kíló af kókaíni.
Í þeirri frétt kemur einnig fram að Hörður starfaði áður sem rannsóknarlögreglumaður hjá ríkislögreglustjóra. Eftir að hann lét af störfum hafi tekið að halla undan fæti hjá honum, segir í fréttinni.