fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fréttir

Gunnar starfar á bráðamóttöku í Ástralíu – „Andstæðingar bólusetninga ættu að sjá fólk kafna úr COVID“

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 7. janúar 2022 07:00

Horft yfir Melbourne og Gunnar á innfelldu myndinni. Samsett mynd:Getty og úr einkasafni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Pétursson er ungur íslenskur bráðahjúkrunarfræðingur sem starfar á bráðamóttöku eins af stærstu sjúkrahúsunum í Melbourne í Ástralíu en rúmlega 5 milljónir búa í borginni. Það er því oft mikið að gera á bráðamóttökunum eins og gefur að skilja og ekki hefur álagið minnkað eftir að heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á. DV ræddi við Gunnar um starfið, heimsfaraldurinn og bólusetningar gegn kórónuveirunni.

Gunnar og fjölskylda hans eru búin að búa í Ástralíu í um fjögur ár. Þau fluttu til Melbourne fyrir nokkrum mánuðum þegar eiginkona hans, sem er áströlsk, fékk vinnu þar en fram að því höfðu þau búið í Sydney. Gunnar hefur áður búið í Ástralíu en hann fór í framhaldsnám það að loknu námi í hjúkrunarfræði hér á landi. Þá kynntist hann eiginkonu sinni. Þau bjuggu hér á landi þar til fyrir fjórum árum þegar þau fluttu til Sydney. Þar starfaði Gunnar á bráðamóttöku eins af sjúkrahúsum borgarinnar allt þar til þau fluttu til Melbourne nýlega.

Gunnar sagði að menntun hans sem bráðahjúkrunarfræðingur geri að verkum að hann eigi ekki í neinum vandræðum með að fá vinnu í sínu fagi og því hafi það ekki verið erfið ákvörðun að flytja frá Sydney til Melbourne vegna vinnu eiginkonu hans.

Að mestu skilvirkt heilbrigðiskerfi

Aðspurður um heilbrigðiskerfið í Ástralíu sagði Gunnar að það sé allt öðruvísi en hér á landi. Öll þjónusta er ókeypis á opinberum sjúkrahúsum sem annast alla þá sem slasast og önnur bráðatilfelli og meira til. „Kerfið er mjög skilvirkt, starfsfólkið er vel menntað og sjúkrahúsin eru risastór. Þó er glímt við sömu vandamál og heima hvað varðar fráflæði frá bráðamóttökum. Reynt er að koma fólki út af bráðamóttökunum eftir fjórar klukkustundir með því að flytja það á aðrar deildir eða senda heim en það tekst ekki alltaf,“ sagði hann.

Sömu sögu er ekki að segja að sýnatökukerfinu vegna kórónuveirunnar. Það er mikið álag á henni sagði Gunnar og erfitt að komast að. Örtröð myndast oft og fólk þarf að bíða í röð í margar klukkustundir. Oft er lokað þegar löng röð hefur myndast og verður fólk þá frá að hverfa. Ekki er boðið upp á hraðpróf á vegum hins opinbera en fólk getur keypt sér hraðpróf í lyfjaverslunum og víðar en þau eru dýr.

Faraldurinn

Hvað varðar stöðu kórónuveirufaraldursins í Ástralíu og þá sérstaklega Victoriufylki, þar sem Melbourne er, sagði Gunnar að hann sé á uppleið eins og víða um heiminn. Í gær greindust um 17.000 manns með veiruna í fylkinu en um 8 milljónir búa í því. Hann sagði að þrátt fyrir þetta hafi innlögnum á sjúkrahús ekki fjölgað, séu á svipuðu róli og þegar Deltaafbrigðið var ráðandi en smitin mun færri.  Það liggi um 3.500 á sjúkrahúsum landsins, þar af um 260 á gjörgæsludeildum.

Hann sagði að faraldurinn hafi valdið miklu álagi á starfsfólk sjúkrahúsanna, flöskuhálsar myndist á bráðamóttökum og deildum því fara verði varlega og kanna hvort þeir sem leita á sjúkrahúsin eru smitaðir. Mikið af einkennalausu fólki komi á sjúkrahúsin og það þurfi að fara varlega í tengslum við það og jafnvel taka sýni úr því. Þá herja veikindi á starfsfólk, bæði COVID og önnur veikindi, og sé um þriðjungur starfsfólks frá vegna veikinda á hverjum tíma. Það rigni því beiðnum yfir starfsfólk um að taka aukavaktir.

Gunnar Pétursson. Mynd úr einkasafni

Vegna þess hversu faraldurinn hefur vaxið að undanförnu var nýlega ákveðið að starfsfólk á sjúkrahúsum klæðist aftur „fullum skrúða“, það er að segja sé með andlitsgrímur, andlitsskjöld, hanska og í plastgalla. „Það er mjög erfitt að vera í þessu í þeim mikla hita sem oft er hér á sumrin, 30 til 35 gráður,“ sagði Gunnar.

Hann sagði að sjúkrahúsin ráði nokkurn veginn við álagið vegna kórónuveirunnar þessa dagana en ekki megi mikið út af bera. Hins vegar gegni öðru máli um sjúkraflutninga, það sé mikið álag á sjúkraflutningamönnum og oft löng bið eftir sjúkrabílum. Mörg dæmi séu um að fólk gefist upp á biðinni og komi sér bara sjálft á sjúkrahús. Þá séu dæmi um að fólk veigri sér við að leita á sjúkrahúsin af ótta við hitta á kórónuveirusmitað fólk. „Faraldurinn er farinn að taka mikinn toll af öllum,“ sagði Gunnar og átti þar við heilbrigðisstarfsfólk og almenning.

Hvað varðar næstu vikur sagðist Gunnar hafa áhyggjur af þróun mála vegna aukningar á smitum, vitað sé að innlagnir skili sér ekki fyrr en um tveimur vikum eftir að smit á sér stað og því sé hætt við að álagið á sjúkrahúsin aukist mikið á næstunni.

Sjúklingi sinnt á gjörgæsludeild sjúkrahúss. Mynd:Getty

Hann sagði að slæmt sé að sjá og heyra í fólki sem afneitar faraldrinum eða er á móti bóluefnum gegn veirunni, það sé sorglegt.

„Það er óhugnanlegt að sjá fólk, jafnvel ungt fólk, beinlínis kafna úr COVID. Andstæðingar bólusetninga ættu að sjá fólk kafna úr COVID, það er eitt það hræðilegasta sem maður sér.“

Gunnar sagðist líka hafa fengið inn sjúklinga sem hafi reynt að lækna sig af kórónuveirunni með óhefðbundnum aðferðum. Til dæmis hafi kona komið sem hafði fastað dögum saman af því að hún hafði lesið að það dræpi veiruna. Hún endaði á gjörgæslu og lá þar vikum saman.

Gunnar Pétursson. Mynd úr einkasafni

Hann sagði einnig sorglegt að taka á móti fólki, sem er ónæmisbælt og getur ekki fengið bólusetningu af þeim völdum, koma á sjúkrahús eftir að hafa smitast af börnum sínum sem afneita COVID og vilja ekki láta bólusetja sig. Þetta sé átakanlegt.

Það sé sorglegt að fylgjast með andstæðingum bólusetninga, sem hengja sig margir á greinar sem læknar, sem hafa verið sviptir starfsleyfi, sendi frá sér um meinta hættu af bóluefnunum. Margir bendi einnig á að þau hafi verið þróuð svo hratt að eitthvað hljóti að vera að.

„Það er rétt að bóluefnin voru þróuð á mettíma en við megum ekki gleyma að ótrúlegu fjármagni var veitt í verkefnið og allar hendur voru á lofti við að þróa þau.“

Hann sagðist sjálfur vera fullbólusettur og búinn að fá örvunarskammtinn, það hafi ekki verið nokkur efi í hans huga um að láta bólusetja sig þrátt fyrir að hann sé með undirliggjandi hjartasjúkdóm.

Sóttvarnaaðgerðir

Hvað varðar sóttvarnaaðgerðir í Ástralíu sagði Gunnar að stjórnvöld hafi lengi rekið grjótharða stefnu og gripið til víðtækra lokana á samfélagsstarfsemi og bannað fólki að fara á milli fylkja. Þetta skilaði árangri því nú hafa tæplega 700.000 greinst með veiruna í landinu en þar búa tæplega 26 milljónir. Um 2.300 hafa látist af hennar völdum en til samanburðar má nefna að í Danmörku hafa um 930.000 smitast og  3.333 látist af völdum veirunnar en þar búa um 5,8 milljónir.

En nú hefur breyting orðið á að sögn Gunnars og eru peningasjónarmið farin að ráða meiru hjá stjórnvöldum en heilbrigðissjónarmið. Slakað hefur verið á sóttvarnaaðgerðum og ferðir til og frá landinu hafa verið leyfðar á nýjan leik en landið var nær algjörlega lokað í 18 mánuði, meira að segja Ástralar fengu ekki að koma heim.

Hann sagðist óttast þróun mála á næstunni vegna þessa. Stjórnvöld hafi nú haft um tvö ár til að undirbúa sig og heilbrigðiskerfið undir enn frekara álag vegna heimsfaraldursins en hafi ekki gert það og nú þurfi að bregðast við hærri smittölum og því sem þeim fylgir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Samfylkingin gagnrýnir auglýsingu á vef Hafnarfjarðar harkalega – Hleypi illu blóði í viðræður

Samfylkingin gagnrýnir auglýsingu á vef Hafnarfjarðar harkalega – Hleypi illu blóði í viðræður
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Foreldrar leikskólabarna fagna áfangasigri – Eru afar ósátt við dómsmálaráðherra

Foreldrar leikskólabarna fagna áfangasigri – Eru afar ósátt við dómsmálaráðherra
Fréttir
Í gær

Gjaldþrota fyrirtæki Quang Le skipað að endurgreiða lyklagjald vegna leigusamnings sem aldrei var efndur

Gjaldþrota fyrirtæki Quang Le skipað að endurgreiða lyklagjald vegna leigusamnings sem aldrei var efndur
Fréttir
Í gær

Samherji leggur listamann í bresku dómsmáli – Villti á sér heimildir og baðst afsökunar

Samherji leggur listamann í bresku dómsmáli – Villti á sér heimildir og baðst afsökunar