Alþjóðlegi meistarinn Vignir Vatnar Stefánsson, sem er aðeins 17 ára gamall, tryggði sér í dag glæsilegan sigur á alþjóðlegu skákmóti í Dublin. Um var að ræða tíu manna lokaðan flokk þar sem allir keppendur tefldu innbyrðis. Leikar fóru þannig að Vignir Vatnar vann yfirburðasigur á mótinu með 7,5 vinninga af 9 mögulegum. Hann leyfði aðeins þrjú baráttu jafntefli en vann sex skákir, þar á meðal enska stórmeistarann Keith Arkell og skoska stórmeistarann Paul Motwani. Hér er hægt að renna yfir skákir Vignis.
Í 2-3. sæti mótsins urðu spænski stórmeistarinn Jose Gonzalez Garcia og írski alþjóðlegi meistarinn Sam E. Collins.
Sigurinn þýðir einnig að Vignir Vatnar tryggði sér sinn fyrsta áfanga að stórmeistaratitli. Til þess að fá slíkan áfanga þurfti Vignir Vatnar að næla sér í 7 vinninga en meistarinn ungi gerði gott betur en það og var búinn að tryggja sér áfangann eftir 8.umferðir sem er framúrskarandi góður árangur. Sigurinn þýðir einnig að Vignir Vatnar nálgast nú óðfluga 2.500 stiga múrinn sem er forsenda þess að hann geti síðar hlotið nafnbótina eftirsóttu.
Óhætt er að fullyrða að íslenskt skáklíf iðar nú í skinninu yfir tilhugsuninni um nýjan stórmeistara. Vignir Vatnar ætlar að leggja allt í sölurnar til þess að hljóta nafnbótina á árinu og raðar nú inn mótum á dagskrá ársins.
Um alla álfuna er skáklíf óðum að nálgast fyrra horf. Á sama tíma og Vignir Vatnar vélaði vargana niður í Dublin fer fram alþjóðlegt skákmót í bænum Cattolica á Ítalíu, Vergani Cup. Mótið er afar sterkt en á meðal keppenda er Íslandsvinurinn Nigel Short sem tefldi einvígið við Garry Kasparov um heimsmeistaratitilinn á árum áður.
Short er enn ógnarsterkur skákmaður og var fyrirfram talinn afar sigurstranglegur á mótinu þó að hann væri rétt búinn að ná sér af svæsinni Covid-sýkingu en til að vinna bug á henni þurfti hann að leggjast inn á spítala.
Good morning everyone! How is your day? pic.twitter.com/3eUe2u4TVu
— Nigel Short (@nigelshortchess) December 14, 2021
Í annarri umferð ítalska mótsins tefldi Short svo við ungan 13 ára Ítala að nafni Lorenzo Candian. Sá var rúmum 600 stigum lægri en Short og mátti því búast við þægilegum sigri Englendingsins. Svo fór þó ekki því Ítalinn ungi valtaði yfir fyrir heimsmeistarakandídatinn og var með gjörunnið tafl. Þá gerðust þau undur og stórmerki að sími drengsins hringdi og það þýddi umsvifalaust tap. Afar ströng viðurlög eru við meðhöndlun raftækja á sterkum skákmótum útaf ótta manna við svindl enda eru allar skákir sendar út í beinni útsendingu.
Vodafone-gambíturinn svokallaði bjargaði því Short sem að var afar feginn ef miðað er við Twitter færslu hans.
My great triumph today was lasting long enough, in a completely resignable position, against a 13 year-old, rated a mere 1966, for his mobile phone to go off and for him to be instantly forfeited. pic.twitter.com/Hi2MxFjgXs
— Nigel Short (@nigelshortchess) January 3, 2022
Að endingu er svo rétt að benda lesendum á eftirfarandi myndskeið frá heimsmeistaramótinu í hraðskák sem að lauk á dögunum. Meiðslahætta í skákinni er nefnilega stórlega vanmetin.
Arguably the best chess KO in history. 🤣
IM Pawel Teclaf vs GM Tigran Petrosian, 0 – 1
World Blitz Championship 2021#chessmemes #chesslife #chessgame pic.twitter.com/Z6wu09xsMd— iChess.net (@OnlineChessLess) January 4, 2022