Sóttvarnalæknir hefur svarað fyrirspurnum DV er varða endursmit þeirra sem áður hafa fengið Covid. Eins og fram hefur komið eru fyrri smit talin vernda síður gegn omicron-afbrigði kórónuveirunnar en gegn öðrum afbrigðum. Hefur þeim enda fjölgað mjög undanfarið sem smitast hafa af Covid í annað sinn.
Í pistli sem sóttvarnalæknir birti um stöðu mála í faraldrinum rétt fyrir jól er að finna eftirfarandi staðhæfingu:
„Tvær bólusetningar og fyrra smit af völdum COVID-19 veita sennilega litla vörn gegn omicron afbrigðinu en örvunarskammtur virðist veita umtalsverða vörn.“
Þeirri spurningu hvort þetta þýði að sá sem hefur smitast áður af Covid og fengið síðan tvær bólefnasprautur sé illa varinn gegn omicron svarar sóttarnalæknir á þann veg að svo sé ekki og þetta orðalag hafi verið villandi:
„Þetta á ekki að skilja á þennan hátt heldur tvær bólusetningar eða fyrra smit. Þetta hefði verið betra orðalag,“ segir í svarinu.
Sóttvarnalæknir segir enn fremur að fyrri Covid-smit verndi ekki eins vel gegn omicron og fyrri afbrigðum. Þá segir ennfremur að besta vörnin gegn Covid sé fyrra smit og tvær sprautur eða þrjár sprautur alls. Ekki sé hægt að greina á milli hvort veiti betri vörn.