fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Fréttir

Samantekt á máli dagsins – Fimm þjóðþekktir karlmenn stíga til hliðar í kjölfar ásakana ungrar konu um kynferðisbrot

Erla Hlynsdóttir, Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 6. janúar 2022 20:12

Arnar Grant, Hreggviður Jónsson, Þórður Már Jóhannesson, Logi Bergmann Eiðsson og Ari Edwald þurftu nýlega að víkja úr starfi vegna ásakana um kynferðisbrot.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maðurinn sem Vítalía Lazareva átti í ástarsambandi við í rúmt ár er Arnar Grant líkamsræktarfrömuður. Vítalía opnaði sig um sambandið í þættinum Eigin konur hjá Eddu Falak á þriðjudag.

Enginn var þar nafngreindur en hún sagðist hafa verið í sambandi með 48 ára þjóðþekktum manni, sem starfar sem einkaþjálfari, og sá maður, ásamt vinum hans, hafi brotið á henni kynferðislega í sumarbústaðarferð í desember 2020. 

Allir helstu fjölmiðlar vísuðu í þáttinn og má segja að þetta hafi verið stærsta fréttin síðustu tvo daga þó enginn af mönnunum hafi verið nafngreindur opinberlega fyrr en í dag. Í Eigin konum sagðist Vítalía ætla að leita réttar síns og að hún hafi þegar leitað til lögmanns vegna málsins.

Arnar er einn þekktasti einkaþjálfari þjóðarinnar, hefur lengi starfað sem slíkur í World Class Laugum og er annar mannanna á bak við próteindrykkina vinsælu Hámark og Teyg. Björn Leifsson, eigandi World Class, staðfesti við Vísi í dag að Arnar væri kominn í leyfi. 

Vítalía greindi fyrst frá málinu á samfélagsmiðlinum Instagram í október og nafngreindi hún þá fjóra karlmenn. Auk Arnars nafngreindi hún þrjá menn sem voru með henni og Arnari í sumarbústaðnum, þá Ara Edwald, Þórð Má Jóhannesson og Hreggvið Jónsson.

Skjáskot sem hún deildi þá fóru víða en ekkert var fjallað um málið. Heimildir Kjarnans herma að mennirnir hafi allir reynt að þagga málið niður og afgreiða það sem kjaftasögu, að ráðum almannatengils.

Hverjir eru þeir?

Ari er framkvæmdastjóri Ísey útflutnings sem er dótturfélag. Mjólkursamsölunnar. Hann hefur komið víða við í atvinnulífinu og starfaði til að mynda sem forstjóri 365 miðla, forstjóri Mjólkursamsölunnar, sem aðstoðarmaður ráðherra og sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Stundin greindi frá því fyrr í dag að hann væri kominn í leyfi að eigin ósk vegna frásagnar Vítalíu, en það staðfesti Elín Margrét Stefánsdóttir stjórnarformaður Ísey útflutnings.

Hún sagði enn fremur í samtali við fréttastofu Vísis að fyrirtækið hafi vitað af ásökununum strax í október og tekið þær alvarlega og gert samkomulag við Ara um að hann færi í leyfi „ef það yrði eitthvað meira úr þessu, kærur eða eitthvað slíkt.”

Hreggviður er stjórnarformaður og aðaleigandi Vistor sem veitir lyfjafyrirtækjum þjónustu við skráningar, sölu- og markaðsmál og rannsóknir, auk þess að aðstoða við innflutnings- og dreifingarstarfsemi. Hann er einnig aðaleigandi Veritas sem sérhæfir sig í rekstri fyrirtækja á sviði heilbrigðisþjónustu. Dótturfélög Veritas eru Artasan, Distica, MEDOR, Stoð og Vistor. Hreggviður hefur verið umsvifamikill í íslensku viðskiptalífi og gjarnan endað á listum yfir tekjuhæstu Íslendinganna. 

Lögmaður Hreggviðar sendi út yfirlýsingu fyrir hans hönd til fjölmiðla fyrr í dag þar sem fram kom: „Ég harma að hafa ekki stigið út úr aðstæðum sem ung kona hefur skýrt frá og fjallað hefur verið um í sumum fjölmiðlum. Það er afar þungbært að heyra um hennar reynslu. Ég lít þetta mál alvarlegum augum og þrátt fyrir að ég hafi ekki gerst brotlegur við lög þá mun ég stíga til hliðar úr stjórn Veritas og stjórnum tengdra fyrirtækja til að raska ekki þeirra mikilvægu starfsemi.“

Þórður Már er stjórnarformaður Festi sem er almenningshlutafélag í meirihlutaeigu lífeyrissjóðanna og á félagið til að mynda Krónuna, N1 og Elko. Á árum áður var hann forstjóri Straums Fjárfestingabanka og síðar forstjóri fjárfestingafélagsins Gnúps sem var um tíð eitt stærsta einkarekna fjárfestingafélag landsins. 

Stjórnarfundur var haldinn hjá Festi í dag þar sem Þórður Már óskaði eftir því að láta af störfum sem stjórnarformaður. Þetta kom fram í tilkynningu á heimasíðu félagsins.

Sumarbústaðaferðin

Vítalía steig eins og áður segir fram í  hlaðvarpsþætti Eddu Falak, Eigin konur. Þar greindi hún frá því að hún hafi átt í ástarsambandi við Arnar Grant í 16 mánuði og á þeim tíma, eða veturinn 2020, hafi Arnar boðið henni í sumarbústað. Þar hafi verið gengið langt yfir hennar mörk. 

Það hafi atvikast eftir að hún fór nakin með Arnari í heitan pott og komu Þórður, Ari og Hreggviður með þeim og voru líka naktir sem henni þótti afar óþægilegt. „Þessir menn eru allir eldri en foreldrar mínir.” 

Þar hafi mennirnir gerst ágengir sem hún hafi harkað af sér þar sem hún vildi ganga í augun á Arnari. Þar sem um vini Arnars var að ræða treysti hún sér ekki til að segja nei, sagði Vítalía í þættinum.

„Maður er í þessum aðstæðum og frýs og segir ekkert.”

Þetta hafi hins vegar farið yfir öll mörk. „Fólk áttar sig ekki á hversu stórt þetta var. Margir halda að þetta hafi verið bara þukl en þetta fór yfir öll mörk hjá öllum.” 

Fyrstu kynnin af Arnari

Vítalía sagðist í þættinum hafa verið afar ástfangin af Arnari en bar honum þó ekki alltaf vel söguna. 

Hún sagði þau hafa kynnst í ræktinni. „Ég var búin að vera að æfa á þessum stað mjög lengi. Hann er náttúrulega að vinna þarna, ég kynnist honum bara þar. Ég ætla ekki að ljúga, ég er sú sem sendi honum Instagram skilaboð fyrst. Það sem ég sendi er bara að ég spurði hvort það væri laust í þjálfun. Þannig byrjuðu okkar samskipti en þegar það byrjar fer það fljótt að rúllast áfram, það verða fljótt tiltölulega öðruvísi samskipti en bara um þjálfun,“ sagði hún.

„Ég er á þessum tíma einhleyp. Hann vissi alveg af því og hann sagði alveg líka við mig að hann væri ekki einhleypur. Eins og ég sagði líka þegar ég kom fyrst fram, ég er ekki saklaus. Ég er ekkert að segja það, ég er að tala við mann sem er þarna giftur og ég veit það.“

Þau hafi náð afskaplega vel saman, hún hafi dáðst mjög að honum og hún hafi óskað þess að hann væri á hennar aldri en ekki tvöfalt eldri. Síðan hafi farið að koma brestir, hann hafi farið að sýna ákveðna stjórnsemi og sagt ljóta og niðurlægjandi hluti við hana á milli þess sem hann hafi verið góður við hana og gefið henni gjafir. 

Golfferðin 

Vítalía greindi einnig frá því í þættinum Eigin Konur að hún hafi farið með Arnari í golfferð síðasta haust. Hann hafi laumað Vítalíu inn á hótel þar sem hann vildi halda sambandi þeirra leyndu, enda giftur maður. Ferðafélagar hans fóru þó að furða sig á því hversu miklum tíma Arnar eyddi á herbergi sínu og að endanum hafi einn þeirra ákveðið að fá herbergislykil í afgreiðslunni og kanna hvað væri í gangi. 

Sá hafi gengið inn á Arnar og Vítalíu í ástaratlotum. Arnar hafi óttast að þessi félagi kæmi upp um framhjáhaldið og ákveðið að kaupa þögn hans með því að bjóða honum kynferðislegan greiða frá Vítalíu, þvert á hennar vilja. Vítalía hefur deilt skjáskotum af samskiptum við þann mann sem hún segir vera fjölmiðlamanninn Loga Bergmann Eiðsson. 

„Hann dregur spil úr einhverju kynlífsleikjaspili, sem er einhver svona mönun, eitthvað sem maður á að gera. Þá á ég bara að fara að sjúga á manninum typpið og hann að fara niður á mig. Og þetta er gert til að hann fái að halda þögn, svo þessi vinur hans fari ekki og segi konunni hvað er í gangi. Ég horfi í augun á honum og segi: Ég vil ekki meira, viltu hætta þessu. Hann sagði bara: Vítalía, þetta er allt í lagi, ég er með þér.

Hvað átti ég að gera? Átti ég að hlaupa út? Ég gat ekki einu sinni farið á bílnum mínum því þetta var á einkavegi sem var lokaður. Ég gat ekki farið án þess að hliðið væri opnað fyrir mér.” 

Vítalía segir Loga hafa tekið fullan þátt og þótt þetta skemmtilegt. Eins og fyrr segir nafngreindi Vítalía Loga á samfélagsmiðlum og deildi samtali sem hún átti við hann í kjölfar golfferðarinnar á samfélagsmiðlum þar sem hún biður hann að taka ábyrgð á því sem átti sér stað á hótelherberginu. 

Logi Bergmann tilkynnti í Síðdegisþættinum á k100 í dag að hann væri farinn í ótímabundið leyfi.

Möguleg áhrif

Um fátt hefur verið rætt í dag annað en mál Vítalíu, sérstaklega eftir að hver meinti gerandi hennar var nafngreindur eftir öðrum og tilkynnt að þeir hefðu stigið til hliðar á sínum vettvangi í atvinnulífi eða farið í leyfi.

Sóley Tómasdóttir, kynja- og fjölbreytileikafræðingur, sagði í samtali við Kastljós í kvöld að atburðarás dagsins, þar sem valdamiklir menn virðast þurfa að taka ábyrgð á framkomu sinni, gæti verið merki um straumhvörf í samfélaginu hvað varðar kynferðisofbeldi.

„Það er eitthvað að breytast. Það er sannarlega eitthvað að breytast.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurjón skaut hart á Sjálfstæðisflokkinn og Morgunblaðið – „Þeir sem töpuðu kosningunum eru óánægðir“

Sigurjón skaut hart á Sjálfstæðisflokkinn og Morgunblaðið – „Þeir sem töpuðu kosningunum eru óánægðir“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir ríkisskattstjóra mismuna styrkþegum – „Bindum vonir við að fjármálaráðherra bregðist hratt og örugglega við“

Segir ríkisskattstjóra mismuna styrkþegum – „Bindum vonir við að fjármálaráðherra bregðist hratt og örugglega við“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Diljá íhugar formannsframboð: „Ég hef þung­ar áhyggj­ur af stöðu flokks­ins“

Diljá íhugar formannsframboð: „Ég hef þung­ar áhyggj­ur af stöðu flokks­ins“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir Rússa vera að endurvopnast í því skyni að ráðast á NATÓ-ríki

Segir Rússa vera að endurvopnast í því skyni að ráðast á NATÓ-ríki