Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri, gagnrýndi Fréttablaðið harðlega á þriðjudag fyrir fréttaflutning af meintum ritstuldi hans þegar hann starfaði í 53 manna teymi við rannsóknarskýrslu Alþingis í kjölfar hrunsins.
Sjá einnig: Ásgeir verulega súr út í Fréttablaðið og birtir sönnunargögn – „Ég verð að segja það frá hjartanu“
Ritstjóri Fréttablaðsins, Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur nú svarað Ásgeiri fullum hálsi.
„Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur opinberlega kvartað yfir skrifum Fréttablaðsins um meintan ritstuld hans á handriti úr fórum sagnfræðings, sem hann er sagður hafa notað án leyfis í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Ásgeir vandar blaðinu ekki kveðjurnar í skrifum sínum og telur fréttaflutning þess hafa verið óvandaðan, ef ekki beinlínis óþarfan.“
Sigmundur segir að Ásgeir sé frjáls að sínum skoðunum en Ásgeir verði þó að vera meðvitaður um stöðu sína í samfélaginu.
„Hann verður nefnilega að una því sem opinber persóna, að um störf hans sé fjallað með gagnrýnum hætti. Og almenningur í landinu á einnig heimtingu á að vita hvernig æðstu stjórnendur landsins rækja störf sín, með eftirgrennslan fjölmiðla.“
Sigmundur segir að umfjöllun Fréttablaðsins hafi verið studd rökum, Ásgeiri hafi verið gefi færi á að svara og fullt tilefni til skrifanna.
„Ástæða þess að Árni benti Fréttablaðinu á ofangreint mál, er að nokkrum dögum fyrr hafði sami Ásgeir verið sakaður um ritstuld af Bergsveini Birgissyni rithöfundi, sem fullyrti að Ásgeir hefði byggt á bók sinni, Leitin að svarta víkingnum, í sinni eigin bók, Eyjan hans Ingólfs, án þess að geta þar rannsókna Bergsveins. Ásgeir hafi neitað sök í þeim efnum og furðað sig á því að hafa þar verið „þjófkenndur í fyrsta skipti.“.“
Sigmundur segir að það sé eðlilega fréttaefni þegar einn æðsti ráðamaður þjóðarinnar er vændur um ritstuld.
„Enda telst það til tíðinda þegar einn æðsti ráðamaður þjóðarinnar er vændur um ritstuld á ferli sínum sem fræðimaður og síðar yfirmaður á lykilstofnun í landinu. Og sérstaklega var gætt að því á ritstjórn að veita Ásgeiri ráðrúm til andsvara áður en fréttin var birt.
Fréttin fjallaði um alvarlegar ásakanir fræðimanns á hendur einum æðsta stjórnanda landsins um meintan ritstuld, á meðan ásakanir rithöfundar um sama efni í garð sama stjórnanda voru í hámæli.
Það kallar á fréttaskrif, ekki þöggun.“