fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Fréttir

Hundruð milljónir teknar út úr Heilsustofnun NLFÍ með ólögmætum hætti

Erla Hlynsdóttir
Fimmtudaginn 6. janúar 2022 12:01

Heilsustofnunin í Hveragerði og Gunnlaugur K. Jónsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt niðurstöðu úttektar Sjúkratrygginga Íslands á Heilsustofnuninni í Hveragerði hafa tæplega 600 milljónir króna verið teknar út úr stofnuninni með ólögmætum hætti og kostnaðnum velt yfir á sjúklinga. Kjarninn greinir frá þessu.

Samningur Heilsustofnunarinnar við Sjúkratryggingar, sem tryggir henni tæpan milljarð króna árlega úr ríkissjóði rennur út í mars en gerðar hafa verið kröfur um úrbætur. Heilsustofnunin hafnar niðurstöðu úttektarinnar. Sjá viðbót neðst í frétt frá kl. 13.22.

Í frétt Kjarnans segir að þessar tæpu 600 milljónir hafi verið teknar út úr félaginu á 15 ára tímabili. „Þetta var gert með því að Nátt­úru­lækn­inga­fé­lagið tók ein­hliða ákvörðun um að hækka arð­greiðslur til sín án aðkomu Sjúkra­trygg­inga Íslands og heil­brigð­is­ráðu­neyt­is­ins, en Heilsu­stofn­unin fær tæpan millj­arða króna úr rík­is­sjóði á ári,“ segir í Kjarnanum.

Þá hafi rekstr­arfé Heilsu­stofn­un­ar­innar verið nýtt til „heilsu­tengdrar ferða­þjón­ustu“ sem er ekki hluti af samn­ingum hennar við Sjúkra­trygg­ingar og hún látin greiða afborg­anir af lánum sem eru þing­lýstar í eigu Nátt­úru­lækn­inga­fé­lags­ins ásamt því að bera allan við­halds- og rekstr­ar­kostnað af fast­eign­un­um.

Heilsustofnunin er í eigu Náttúrulækningafélags Íslands. Forseti þess félags, og ennfremur stjórnarformaður Heilsustofnunarinnar, er Gunnlaugur K. Jónsson, sem einnig hefur starfað sem yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Vara­for­seti Nátt­úru­lækn­inga­fé­lags­ins er Geir Jón Þór­is­son, fyrr­ver­andi vara­­þing­­maður Sjálf­­stæð­is­­flokks­ins og fyrr­ver­andi yfir­­lög­­reglu­­þjónn. Hann er vara­maður í stjórn Heilsu­stofn­un­ar­inn­ar.

Geir Jón Þórisson

„Báðir þessir aðilar eru skráð félaga­sam­tök og skila því ekki árs­reikn­ingum til Skatts­ins líkt og flestir rekstr­ar­að­ilar þurfa að gera. Þá er afar óvenju­legt að félaga­sam­tök eigi önnur félaga­sam­tök,“ segir í frétt Kjarnans sem má lesa í heild sinni með því að smella hér.

Viðbót klukkan 13.19:

DV hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Þóri Haraldssyni, forstjóra Heilsustofnunar NLFÍ.

Góðan daginn.

Þar sem í fréttum ykkar kom fram umfjöllun um Heilsustofnun sem byggð er á frétt í Kjarnanum í morgun, vil ég upplýsa að eftirfarandi yfirlýsing var send til Kjarnans fyrir skömmu:

Sæll Þórður, 

Ég vil byrja á að benda á að úttekt Sjúkratrygginga á málefnum Heilsustofnunarinnar er ekki lokið, öfugt við það sem segir í frétt Kjarnans. Staðfesti deildarstjóri eftirlitsdeildar SÍ í tölvupósti til okkar að svar Heilsustofnunar frá í janúar verði metið sem andmæli við bréfi SÍ frá í desember. Við lítum því svo á að úttektinni sé ekki lokið og að enn eigi eftir að taka tillit til andmæla okkar. 

Í fréttinni er því slegið upp að „um 600 milljónir króna hafi verið teknar ólöglega út úr Heilsustofnun“. Þetta er rangt. Staðreyndin er sú að hver einasta króna af framlagi ríkisins til Heilsustofnunar hefur farið til að veita þjónustu til sjúklinga í samræmi við þjónustusamning stofnunarinnar við Sjúkratryggingar Íslands. 

Greiðslur til eigandans, Náttúrulækningafélags Íslands, eru í samræmi við samning sem gerður var við Heilbrigðisráðherra árið 1991 þegar Heilsustofnun var sett á laggirnar og hafa þær greiðslur alltaf legið fyrir þegar samningar við SÍ hafa verið endurnýjaðir. 

Heilsustofnun hefur ekkert að fela. Við höfum sent Sjúkratryggingum, og áður heilbrigðisráðuneytinu ársreikninga, skýrslur og niðurstöður árangursmælinga og fengið lof þeirra fyrir góð og skilvirk skil. Þá hefur Ríkisendurskoðun fengið ársreikninga stofnunarinnar. Allar okkar bækur eru opnar fyrir Sjúkratryggingar og Ríkisendurskoðun, öllum fyrirspurnum hefur verið svarað og engar athugasemdir hafa verið gerðar, – aldrei, hvorki við faglega þjónustu né fjármál. 

Nú á haustdögum höfum við verið í bréfaskiptum við nýstofnaða eftirlitsdeild Sjúkratrygginga þar sem ljóst er að forstöðumaður þeirrar deildar hefur ekki haft nægilega þekkingu á samningum og samskiptum Heilsustofnunar og Sjúkratrygginga. Meðal annars hefur þetta snúist um efnisatriði samninga við Heilbrigðisráðuneytið frá 1991, þegar Heilsustofnun var stofnuð, og virðist eftirlitsdeildin halda fram að það samkomulag sem þá var gert hafi ekkert gildi og sé marklaust. 

Stóra fréttin í málinu er í raun sú að sjúklingar Heilsustofnunar hafa með sérdaggjöldum greitt um 300 milljónir króna síðustu 5 ár til að kosta meðferðarstarf af því að framlög Sjúkratrygginga hafa ekki einu sinni nægt fyrir meðferðarkostnaði.  

Sérdaggjöld eru innheimt þar sem framlög ríkisins nægja ekki fyrir meðferðarkostnaði, hvað þá gistingu eða fæði og það er í fullu samræmi við samning SÍ og Heilsustofnunar. 

Til að fá niðurstöðu í málin og ljúka því óskaði Heilsustofnun í gær eftir fundi með Sjúkratryggingum um þær kröfur sem eftirlitsdeildin hefur sett fram og hvort Sjúkratryggingar fari fram á einhverja breytingu á kröfum til Heilsustofnunar. 

Kveðja, 

Þórir Haraldsson 

Stjórnarformaður Heilsuhælisins með 1,2 milljónir á mánuði – Forstjórinn látinn hætta fyrirvaralaust

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Leitað að hinni fágætu Mirabel með geltandi dróna – Hugsanlegt að henni hafi verið stolið

Leitað að hinni fágætu Mirabel með geltandi dróna – Hugsanlegt að henni hafi verið stolið
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Aftur reynt að brjótast inn í hraðbankann á Völlunum – „Peningahólfið er mjög rammgert“

Aftur reynt að brjótast inn í hraðbankann á Völlunum – „Peningahólfið er mjög rammgert“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hvítt ryk hrellir bílaeigendur í nágrenni við niðurrifnu Íslandsbankabygginguna – „Bíllinn er allur þakinn“

Hvítt ryk hrellir bílaeigendur í nágrenni við niðurrifnu Íslandsbankabygginguna – „Bíllinn er allur þakinn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hvað gerðist á bak við tjöldin sem lét Biden hætta við

Hvað gerðist á bak við tjöldin sem lét Biden hætta við