Örtröð myndaðist á Keflavíkurflugvelli um klukkan 21 í gær. Ástæðuna fyrir mannmergðinni má rekja til þess að á milli 20:49 og 21:55 í gær lentu alls 5 flugvélar fullar af fólki sem var að mæta heim úr sól og sumaryl á Tenerife. Þá mættu einnig ein flugvél frá Búkarest, höfuðborg Rúmeníu, á sama tíma.
Einstaklingur sem var á staðnum um þetta leyti hafði samband við DV vegna málsins. Sá segir að fólk hafi verið sent á milli færibanda í von um að finna töskurnar sínar.
„Nú eru allir þessir farþegar búnir að bíða eftir því að fara í skimun og röðin hefur ekki hreyfst í rúma klukkustund,“ segir hann og bætir við að þarna á flugvellinum eru engar reglur um nálægðartakmarkanir. Í upplýsingum frá flugvellinum er fólk þó hvatt til þess að halda öruggri fjarlægð við aðra farþega á flugvellinum.
Nýgengi landamærasmita var í fyrradag 240 á hverja 100.000 en það hefur ekki verið hærra síðan faraldurinn hófst. Það er þó töluvert minna en nýgengi innanlandssmita en það var 2.817,3 á sama tíma.
Hér fyrir neðan má sjá myndir sem einstaklingurinn sem hafði samband við DV tók á flugvellinum í gær: