Ásta Þórdís Skjalddal, sem ávallt er kölluð Ásta Dís, fékk óvænt símtal frá greiðslumiðluninni Valitor að morgni 3. janúar. Var hún spurð hvort hún hafi heimilað tilteknar úttektir af debetkorts-reikningnum sínum sem merktar voru Apple.com. Ásta Dís kom af fjöllum þó að hún hefði reyndar rétt fyrir áramótin rekið augun í eina grunsamlega færslu af þessu tagi, frá 29. desember, og ætlaði að kanna hana betur eftir áramót. Einnig hafði lítil úttektarfærsla verið gerð rétt fyrir jól sem fór framhjá henni. Það sem hún vissi ekki var að ókunnur, óprúttinn erlendur aðili var nánast búinn að hreinsa út af reikningnum hennar, samtals tæplega 350 þúsund krónur, og á Ásta Dísa núna aðeins tæpar 7 þúsund krónur eftir til að lifa af út mánuðinn.
Um áramótahelgina voru gerðar fjölmargar úttektir af reikningi Ástu Dísar, hver og ein upp á rúmlega 15 þúsund krónur. Þær voru merktar Apple.com En hún hefur reikninginn sinn ekki tengdan við Apple ID og í þau tvö skipti á ævinni sem hún hefur verslað við Apple í gegnum netið hefur hún notað aðra reikninga.
„Ég er ekki með kortið mitt tengt við Apple-reikning. Ég á Apple-reikning en ég hef eingöngu notað Paypal og gjafakort til að nota hann, þannig að þessi reikningur hefur aldrei tengst Apple á nokkurn hátt. Þannig að þetta hefur ekkert með Apple að gera. Þetta er einhver aðili úti í heim sem setur þetta í skýringu og það virkar ábyggilega rosalega vel vegna þess að það eru svo margir með reikninginn sinn tengdan við Apple,“ segir Ásta Dís í spjalli við DV.
Eftir að hún vakti athygli á málinu á samfélagsmiðlum hafa margir lagt orð í belg og leitt líkur að því að um gæti verið að ræða kostnað í tengslum við netleiki eða misskilning í kjölfar annarra viðskipta við Apple. Ásta Dís segir það vera af og frá:
„Þetta er ekki í tengslum við neinn leik og þetta er enginn misskilningur, þetta er bara rakinn þjófnaður sem hefur ekkert með Apple að gera,“ segir Ásta Dís.
„Þetta er svo úthugsað, fyrst ein lítil úttekt fyrir jól og svo nota þeir áramótahelgina, sem er löng helgi út um allan heim, til að hreinsa út af reikningum,“ segir hún ennfremur.
Strax eftir símtal Valitor við Ástu Dís var reikningnum lokað en málið er nú farið í rannsóknarferli hjá viðkomandi viðskiptabanka hennar. Henni er tjáð að hún eigi bótarétt í málinu en vinnsluferlið tekur 60 daga. Ásta Dís sér því fram á erfiða daga með lítið á milli handanna:
„Ég barðist við fátækt í mörg ár þannig að þetta er flashback inn í þá tíma þegar erfitt var að versla í matinn,“ segir hún en hún hefur innan við 7 þúsund krónur til umráða fram að næsta útborgunardegi.
Ásta Dís segist ekki hafa hugmynd um hvernig hinir óprúttnu aðilar komust yfir bankaupplýsingarnar hennar. Sjálf segist hún vera afar varkár á netinu og aldrei smella á einhverja tengla að óathuguðu málinu. Hún tók saman yfirlit yfir netviðskipti sín tengdum þessum reikningi undanfarna mánuði og er þar bara að finna viðskipti við þekkta og trausta innlenda aðila. Hún veltir því fyrir sér hvort upplýsingaleki kunni að hafa átt sér stað.
Ásta Dís fékk staðfest í samtali við fulltrúa Valitor í dag að hún hafi ekki gert neitt rangt eða nein mistök í aðdraganda glæpsins. Bótastaða hennar í málinu er góð.
DV sendi fyrirspurn vegna málsins til Jónínu Ingvadóttur, upplýsingafulltrúa Valitor. Í svörum hennar kom fram að staða korthafa í málum af þessu tagi væri sterk ef þeir hafa ekki gefið upp kortaupplýsingar sínar eða staðfest greiðslur með staðfestingarkóða sem sendur er í gegnum sms. Ljóst er að Ásta Dís gerði hvorugt og því má telja líklegt að hún fái tjónið bætt.
DV spurði meðal annars hvort mál af þessu tagi væru algeng og hver væri líkleg orsök, hvort um upplýsingaleka gæti verið að ræða eða hvort viðkomandi hefði orðið fyrir einhvers konar tölvuárás.
Jónína tók fram að hún gæti ekki tjáð sig um málefni einstaklinga en svaraði fyrirspurninni almennt með eftirfarandi orðum:
„Kortafyrirtækin leggja mikla fjármuni í að tryggja að kortagreiðslur séu öruggur valkostur í viðskiptum og sérstaklega netgreiðslum. Kortagreiðslur eru öruggar í langflestum tilvikum, en þó eiga svik sér stað þrátt fyrir það. Við viljum því gjarnan koma upplýsingum á framfæri eins og hægt er til að fólk vari sig.
Svona svik eins og þú lýsir eru ekki algeng en koma þó einstaka sinnum upp og vert er að taka fram að þó að Apple eða hvað annað stórfyrirtæki komi fram sem söluaðili þá er það mjög líklega vegna þess að þrjótar sem komast yfir kortaupplýsingar eru að nýta þær upplýsingar til að ná sér í einhver verðmæti. Stórfyrirtækið er bara grandalaust að selja eitthvað sem það gerir alla daga og í raun ekki aðili að málinu. Bara eins og ef einhver stæli þínu greiðslukorti og notaði það í næstu matvörubúð nokkrum mínutum síðar, þá er sú búð ekkert með í þeim svikum.
Það er ýmsar orsakir kortasvika og þarf að skoða einstaka mál til að greina þau. Það sem við getum þó bent á er að fara eins varlega og mögulegt er með kortaupplýsingar, passa sig á öllu sem lítur út fyrir að vera grunsamlegt og sérstaklega ef beðið er um upplýsingar eins og t.d. kortanúmer eða staðfestingar krafist á greiðslum frá aðila sem ekki er búist við í gegnum sms.
Svikamál fara í sérstakt ferli innan viðskiptabanka og Valitor sem byggja að mestu á alþjóðlegum reglum kortafyrirtækja og oft er hægt að koma í veg fyrir að einstaklingar lendi í tjóni vegna svika. Almennt er staða korthafa nokkuð sterk hafi þeir passað sig á að gefa ekki uppi kortanúmer né staðfest greiðslur með staðfestingarkóda sem er sendur í gegnum sms.
Ávallt er reynt er að leysa úr svikamálum með sem farsælustum hætti.“