Á nýársdag fékk íbúi í Mosfellsbæ ansi leiðinlega heimsókn í garðinn sinn. Tveir unglingar gerðu sér ferð í garð íbúans og nágranna hans og frömdu skemmdarverk á skrautsteinum í görðunum.
Íbúinn greinir frá þessu í færslu sem birt var í hverfishóp Mosfellinga á Facebook. „Unglingarnir notuðu hamra og eyðilögðu alla steinana og tóku einhverja með sér, þetta er leiðindaatvik,“ segir íbúinn í færslunni og kallar svo eftir því að foreldrar ræði við börn sín vegna málsins.
„Það væri gott ef foreldrar töluðu við börnin sín og segðu þeim að það er ekki í lagi að eyðileggja hluti hjá öðrum.“
DV ræddi við íbúann sem segist ekkert vita hvort fleiri hafi orðið fyrir barðinu á skemmdarvörgunum. „Þetta er bara skemmdarfísn ekkert annað,“ segir íbúinn í samtali við blaðamann.
„Ég er með myndavélakerfi á húsinu þannig að ég skoðaði hvað þau voru að gera og þetta var bara engin ástæða fyrir verknaðnum“
Þá birti íbúinn mynd, sem sjá má hér fyrir neðan, af skemmdarvörgunum í færslunni en erfitt er að sjá hverjir það eru sem frömdu verknaðinn þar sem andlit þeirra eru hulin fatnaði.
Ljóst er að íbúar Mosfellsbæjar eru allt annað en sáttir með skemmdarverkin en færslan vakti mikil reiði- og sorgarviðbrögð hjá meðlimum hverfishópsins.