Guðjón Jensson, leiðsögumaður og eldri borgari í Mosfellsbæ, er orðinn þreyttur á sprengjuæði landsmanna um áramótin og veltir því fyrir sér í pistli í Morgunblaðinu hvort það ætti ekki að láta flugeldasölu björgunarsveitanna líða undir lok.
„Sjaldan hefur slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel víðar á landinu fengið jafnmörg útköll vegna bruna og að þessu sinni. Áramótin eru mörgum erfið, ekki aðeins slökkviliðinu heldur einnig flestum sem eiga í erfiðleikum með alla þá mengun og hávaða sem af flugeldum og blysum stafa,“ segir Guðjón í upphafi pistilsins.
Þá minnir hann á hve erfiður þessi tími er fyrir dýrin. „Og ekki má gleyma blessuðum dýrunum sem vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið, þau fælast af öllum þessum ósköpum hvort sem hundar eða kettir, hestar, fuglar eða af einhverri annarri tegund eiga í hlut. Af hverju eru þessi ósköp lögð á dýrin og þá sjúku sem mega ekki við auknu álagi meðal annars vegna öndunarerfiðleika og jafnvel einfaldra hræðsluviðbragða?“
Flestir réttlæta flugeldasölu með því að björgunarsveitir landsins þurfi á fjáröfluninni að halda. Guðjón segir að auðvitað þurfi að tryggja björgunarsveitunum næga tekjustofna til að standa straum af þeim útgjöldum sem vænta má í starfi þeirra en hann spyr hvers vegna tekjurnar þurfi að koma frá flugeldasölu.
„Hvers vegna þarf þetta fyrirkomulag að vera hjá okkur eins og í villta vestrinu þar sem hver og einn getur keypt sér miklar flugeldabirgðir og hagað sér eins og versti stríðsherra?“
Hann bendir þá á möguleika sem hefur margoft verið ræddur í gegnum árin, að ríkissjóður standi undir rekstri björgunarsveitanna. Hann segir að sveitarfélögin gætu einnig komið inn sem samstarfsaðilar.
„Eftir hver áramót eru mörg sveitarfélög útilítandi eins og eftir stríðsátök. Leifar af skottertum, flugeldum og blysum liggja eins og hráviði, engum til framdráttar en öllum til vansa. Með því að sveitarfélögin gangi til liðs við björgunarsveitirnar um góða og vandaða flugeldasýningu um lágnættið á gamlárskvöld mætti halda mengun í lágmarki. Einnig hættu á eldsvoðum sem meira en nóg var af um núliðin áramót. Með þessu mætti halda mengun og hreinsunarkostnaði í lágmarki. Og eins slysahættu, sem er allt of mikil í þessu ástandi villta vestursins.“
Þá veltir Guðjón einnig fyrir sér þeim möguleika að láta björgunarsveitirnar rukka fyrir veitta aðstoð. „Það er gert víða um heim. Sá sem þarf á einhverri nauðsynlegri þjónustu að halda verður auðvitað að greiða fyrir hana sanngjarnt endurgjald,“ segir hann.
„Eitt af meginverkefnum björgunarsveita landsins er að veita ferðafólki aðstoð sem hefur álpast vanbúið út í óvissuna. Það er með öllu óþolandi að jafnvel tugir manna verði bundnir kannski dögum saman við að sækja vanbúið ferðafólk og bíl á hálendið vegna þess að viðkomandi hafði ekki kynnst sér aðstæður og þá sérstaklega veðurhorfur nægjanlega vel.“
Guðjón bendir á að í Sviss þurfi fólk að greiða fullt verð fyrir veitta aðstoð björgunarsveita, hann segir það hafa gefist vel þar í landi. „Á Íslandi ætti það að heyra sögunni til að vanbúnir ferðalangar sem álpast út í óvissuna fái veitta aðstoð án eðlilegs endurgjalds. Vitneskja um að þurfa að greiða fyrir aðstoð hvetur alla til vandaðri undirbúnings ferðalaga,“ segir hann.
En burtséð frá því hvernig starfsemin á að vera fjármögnuð þá er Guðjón staðfastur á einu: „Flugeldasala björgunarsveitanna ætti að heyra sögunni til. Hún er barn síns tíma.“