Ár hvert er það hefð DV að birta ítarlega Völvuspá í lok árs þar sem spámiðill er fenginn til þess að skyggnast bak við huliðstjöld framtíðarinnar og reyna að greina hvað sé að fara að gerast í íslensku þjóðfélagi á næsta ári. Eftir nokkra leit samþykkir miðill, kona á besta aldri sem býr í nágrannasveitarfélagi Reykjavíkur að taka verkefnið að sér og setjast niður með blaðamanni DV.
Eins og alltaf við slíka iðju er fyrirvörum komið á framfæri. „Það er hægara sagt en gert að líta yfir svo breytt svið og reyna að skynja hvað er í vændum á næsta árið. Það er mun erfiðara en að sitja með einhverjum í sama herbergi og reyna að spá fyrir um framtíð hans,“ segir Völva DV þetta árið.
Þess ber að geta að völvuspá DV verður birt í nokkrum hlutum yfir hátíðarnar en hér að neðan má lesa um hvaða Völva DV telur að eigi eftir að berast hæst í fréttum næsta árs.
Illu heilli mun árið 2022 að stórum hluta snúast um kórónuveirufaraldurinn. Fyrstu tveir mánuðir ársins verða þungir á meðan veiran æðir yfir landið en síðan fer að rofa til. Létt verður á sóttvörnum, sérstaklega fyrir þá sem eru þríbólusettir, og látið verður af kröfum um hraðpróf á ýmsa viðburði. „Um mitt næsta ár verður látið af rakningu og öllum þeim kostnaði sem því fylgir. Þá mun samfélagið líta í baksýnisspegilinn og gera upp hvernig til hefur tekist við að glíma við heimsfaraldurinn. Það verða mjög skiptar skoðanir um það. “
Eins og áður verður ástandið orðið mun betra um næsta sumar sem þýðir að framundan eru skemmtilegir en líka tryllingslegir mánuðir þar sem Íslendingar upplifa frelsi að nýju og sleppa fram af sér beislinu. Í lok þessa árs verður kórónuveirufaraldurinn liðinn undir lok og má segja að endapunkturinn verði þau tíðindi að Þórólfur Guðnason lætur af störfum sem sóttvarnarlæknir.
„Það er búið að vera ómannlegt álag á Þórólfi undanfarin ár og hann verður hvíldinni feginn. Hann upplifði ótrúlega tíma þar sem orð hans voru sem lög en mótvindurinn hefur orðið meiri eftir því sem hefur áliðið. Hann hefur ekki verið óskeikull í sínum aðgerðum en hann getur þó borið höfuðið hátt og þjóðin mun hylla hann fyrir vel unnið verk.“
Ferðaþjónustufyrirtækin ná vopnum sínum
Uppsöfnuð ferðaþrá Íslendinga og annarra gerir það að verkum að bjart er framundan hjá þeim ferðaþjónustufyrirtækjum sem lifðu hamfaraárin af. Erlendis verða Íslendingar hylltir fyrir það snilldarbragð að halda kórónuveirunni í skefjum fyrst um sinn en sýkja svo alla þjóðina af hinu meinlausa Omicron-afbrigði. Íslensk stjórnvöld munu gera sitt í því að breiða út að þetta hafi alltaf verið planið.
Áhugi á ferðalögum til Íslands nær nýjum hæðum sem þýðir að landsmenn verða í kapphlaupi við erlenda ferðamenn um hótel- og gistihúsapláss sem og aðgangsmiða ofan í helstu heita polla landsins.
Þá verður árið gott hjá Icelandair en sérstaklega hjá PLAY sem að stórbætir sætanýtingu auk þess sem ferskir áfangastaðir eins og til Lissabon og Prag eiga eftir að falla vel í kramið hjá ferðasjúkum Íslendingum.
Þá mun ríkisstjórnin ekki gefa landsmönnum árlegt gjafabréf á KFC, eða svokallaða Ferðagjöf.
Bankarnir í brennidepli
Kraftur verður settur í að selja 65 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka, að öllu leyti eða í skrefum. Áformin munu renna átakalaust í gegn enda er almenn ánægja með hvernig til tókst með fyrsta skrefið í sölu bankans.
Talsverður stormur verður hins vegar um Landsbankann á árinu þegar í ljós kemur að kostnaður við byggingu höfuðsstöðva bankans er gjörsamlega kominn úr böndunum. Upphaflega átti kostnaðurinn við bygginguna, sem er 16.500 fermetrar á dýrasta stað í miðbænum, að vera um 9 milljarðar króna en greint hefur verið frá því að sá kostnaður sé að minnsta kosti kominn upp í 12 milljarða króna.
„Það verður mikill fjölmiðlastormur þegar í ljós kemur að kostnaðurinn er orðinn mun meiri auk þess sem talsverðar tafir verða á afhendingu hússins.“
Vonir stóðu til að byggingin yrði tilbúin fyrir lok árs en það mun ekki ganga eftir. Þessar tafir og kostnaður verða til þess að spurningamerki verða sett við þá ákvörðun að leggja af stað í þessa vegferð sem var gert án þess að eigandi bankans, íslenska ríkið, hefði nokkuð um það að segja.
„Það munu spretta upp miklar deilur vegna þessa og afleiðingarnar verða þær að þeir sem verða taldir ábyrgir innan bankaráðs Landsbankans verða látnir taka pokann sinn. Þá mun málið skaða bankastjórann verulega og gera hana valta í sessi.“
Nýsköpun og gullæði í rafmyntum
Þetta verður ár nýsköpunarfyrirtækjanna en miklir kraftar munu leysast úr læðingi í þeim geira. „Það mun allt snúast um nýsköpun og mörg störf skapast á þeim vettvangi þegar að nokkur kraftmikil fyrirtæki stækka hratt. Íslendingar munu uppskera ríkulega vegna velgengni þessara fyrirtækja.“
Viðskipti með rafmyntir munu njóta mikilla vinsælda hjá Íslendingum á næsta ári enda þjóðin yfirleitt ginnkeypt fyrir nýjungum og skyndigróða. Tíðindi af nýjum íslenskum milljónamæringum sem fjárfestu í lítt þekktum myntum verður til þess að einskonar gullgrafaraæði myndast meðal hluta þjóðarinnar.
„Eins og gengur mun sumum ganga vel en aðrir brenna allar brýr að baki sér með áhættufjárfestingum.“
Að sama skapi myndast mikil umræða um Bitcoin-gagnaver hér á landi og er fjöldinn á þeirri skoðun að það sé óverjandi að myndarlegur hluti af íslenskri raforkuframleiðslu fer í að knýja slík gagnaver. „Í kjölfarið verða settar hömlur á slíka starfsemi hérlendis.“
Einkaaðilar í ruslflokk
Íslendingar hafa verið að vakna upp við vondan draum að úrvinnsla sorps og endurvinnsla er í fullkomnun ólestri. Vandræði Sorpu með nýja gas- og jarðgerðarstöð verður áfram í umræðunni og verður stórt mál í sveitastjórnarkosningum. Hins vegar mun koma í ljós að einkaaðilar á markaðinum eru með skólpmengað mjöl pokahorninu. „Fnykurinn af þessu daunilla vandamáli mun gjósa upp af miklum krafti á nýju ári. Sérstaklega snýr það að flestu því sem að við kemur endurvinnslu hérlendis en þar hafa neytendur verið blekktir í sumum tilvikum.“
Uppgjör á pizzumarkaði
Íslendingar elska flatbökur og engin breyting verður á því í ár. Hins vegar sér Völvan fyrir sér að einhver uppstokkun verði á markaðinum. Samkeppnin er afar hörð og eitthvað verður undan að láta. „Dominos er að ná tökum á sínum rekstri eftir erfið ár en Pizzan glímir áfram við vandræði sem gæti þýtt endurskipulagningu eða jafnvel aðkomu nýrra fjárfesta að fyrirtækinu. Spaðinn hefur ekki náð því flugi sem lagt var upp með. Ef þú ætlar að bjóða upp á ódýrar pizzur þá verðuru að helst að vera út um allt og það hamlar fyrirtækinu. Þórarinn Ævarsson er þó lunkinn rekstrarmaður og ég sé fyrir mér ár breytinga og upprisu hjá honum.“
Þá syrgja margir brotthvarf Eldsmiðjunnar en tortíming þess vörumerkis á mettíma ætti að hljóta einhverskonar skammarverðlaun í íslensku viðskiptalífi. Það er þó vandséð hvort að þörf sé nýrri keðju enda kannski ekkert tómarúm til staðar á markaðinum. Líklegra er að núverandi aðilar á markaði reyni að stækka sína sneið af kökunni, til að mynda Castello.
Íslensk fataverslun á vonarvöl
Þó að eigendur íslenskra fataverslanna hafi brosað og sagt að þeir taki samkeppni erlendra netverslanna fagnandi þá eru þeir alls ekkert að taka henni fagnandi. Covid-19 faraldurinn hefur gert það að verkum að Íslendingar eru að færa sig hratt yfir í netverslun. Innkoma stórra netrisa eins og Boozt.com sem býður upp á hagstæð verð og lágan sendingarkostnað gæti reynst banabiti fyrir marga verslunarmenn. „Aðilar sem reka tískuvöruverslanir hérlendis, eins og til að mynda NTC og Bestseller, munu finna vel fyrir þessari þróun og það mun draga til tíðinda á þessum markaði. Einhverjir lifa þetta ekki af.“
Breytingar hjá líkamsræktarstöðvum
Það má einnig búast við talsverðum breytingum á líkamsræktarmarkaðinum en mörg slík fyrirtæki hafa mátt þola miklar búsifjar undanfarin tvö ár. Stærsti mánuður ársins í sölu nýrra korta er síðan yfirleitt janúarmánuður en nú er staðan sú að hálf þjóðin er í sóttkví og aðrir vilja forðast smit og halda sig því heima. „Það eru margir sem hafa lært að stunda sína líkamsrækt utan líkamsræktarstöðvanna á þessum einkennilegu tímum og spara sér því að kaupa sér kort í ræktina. Það gæti því dregið til tíðinda á þessum markaði á árinu. Risinn World Class mun þó áfram gera vel en smærri keðjur eru að berjast í bökkum. Viðtökurnar við Afreki, nýrri líkamsræktarstöð sem opnaði á dögunum, gæti bent til þess að möguleiki sé á markaði fyrir nýjar stöðvar með litla yfirbyggingu og persónulega nálgun.