Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir þolandanum, sem kýs nafnleynd, að samstarfsmaður hans fyrrverandi hafi hegðað sér á óviðeigandi hátt allt frá 2015 og í ferð til Parísar 2018 hafi hann brotið alvarlega af sér. Hann sagði að mörg dæmi hafi verið um óviðeigandi orð og athafnir en í Parísarferðinni 2018 hafi maðurinn þuklað á honum og brotið gegn fleirum.
Það kom þolandanum í opna skjöldu að maðurinn fékk að snúa aftur til starfa og telur hann sig ekki hafa fengið viðeigandi málsmeðferð eða úrlausn hjá forsetaembættinu. Hann sagði upp starfi sínu í sumar, leitaði til Stígamóta og kærði málið síðan til lögreglunnar og hefur honum verið skipaður réttargæslumaður. „Þessi mál hafa tekið gríðarlegan toll,“ sagði maðurinn sem bjó og starfaði á Bessastöðum árum saman.
Fréttablaðið hefur eftir Sif Gunnarsdóttur, forsetaritara, sem hóf störf fyrr á árinu að brotlega manninum hafi verið leyft að snúa aftur til starfa að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þar með hafi málinu lokið hjá embættinu en áfram hafi verið unnið með fagaðilum og starfsmenn hafi fengið ráðgjöf og stuðning. Hún sagði jafnframt að nú séu umfangsmiklar skipulagsbreytingar í gangi á Bessastöðum og verði störf þeirra tveggja starfsmanna sem hafa haft búsetu á Bessastöðum lögð niður.