fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Jakob Frímann sakaður um að beita blekkingum til að koma barni úr landi

Erla Hlynsdóttir
Miðvikudaginn 8. september 2021 19:21

Jakob Frímann Magnússon. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jakob Frímann Magnússon er til skoðunar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eftir að móðir sakar hann um að hafa beitt utanríkisráðuneytið blekkingum í þeim tilgangi að koma barninu hennar úr landi – án hennar samþykkis – en móðirin er forsjáraðili barnsins. 

Móðirin telur að Jakob Frímann hafi misnotað stöðu sína sem fyrrverandi starfsmaður ráðuneytisins og þjóðþekktur einstaklingur til að koma barninu til föður þess, vinar Jakobs Frímanns, sem er búsettur erlendis.

Utanríkisráðuneytið hefur beðið móður barnsins afsökunar vegna málsins og sú afsökunarbeiðni verið ítrekuð. Móðirin hafði síðan samband við lögregluna og óskaði eftir því að Jakob Frímann yrði rannsakaður vegna málsins.

Orðrétt útgáfa nokkrum klukkutímum síðar

Jakob Frímann setti sig í samband við utanríkisráðuneytið í mars á síðasta ári sem í framhaldinu útbjó svonefnt liprunarbréf til að barnið gæti komist inn í landið þar sem faðir þess er búsettur.

Bréfið var orðrétt í samræmi við tillögu Jakobs Frímanns sjálfs af liprunarbréfi, og var síðan gefið út, undirskrifað og stimplað af ráðuneytinu aðeins nokkrum klukkustundum síðar.

Ráðuneytið kannaði ekki sannleiksgildi þess sem kom fram í tillögunni sem Jakob Frímann sendi og ráðuneytið síðan afritaði, svo sem fullyrðingu þess efnis að beiðnin væri gerð með samþykki móður. Liprunarbréf voru á þessum tíma meðal annars gefin út til að gera fólki kleift að ferðast á milli landa á tímum COVID-19, þrátt fyrir lokanir landamæra.

Breyting vegna heimsfaraldurs

Forsaga málsins er sú að foreldrar barnsins áttu í viðkvæmum umleitunum um fyrirkomulag á umgengni tveggja barna sinna eftir að faðir þeirra flutti til útlanda. Búið var að komast að samkomulagi um að börnin myndu heimsækja föður sinn í febrúarlok á síðasta ári en forsendur breyttust þegar kórónuveirufaraldurinn fór að geisa um heimsbyggðina.

Fullkomið óvissuástand ríkti, eldra barnið treysti sér ekki að ferðast á þessum tíma og því ákvað móðirin að bæði börnin myndu halda kyrru fyrir á Íslandi og sæta færis síðar til að heimsækja föður sinn en næsta ferð var áætluð fyrir páska, en páskadagur var 12. apríl þetta ár. Rætt hafði verið um að börnin gætu farið út í byrjun apríl, og ýmist talað um fyrsta eða sjötta apríl. Móðirin hafði á engan hátt sett sig upp á móti því að börnin myndu fara út til föður síns.

„Áríðandi bréf“

Faðir barnanna varð óþreyjufullur og sætti sig ekki við að fá ekki yngra barnið til sín þó það eldra hafi ekki treyst sér til að ferðast. Covid 19 heimsfaraldurinn var þarna byrjaður að láta finna fyrir sér af fullum þunga og útlit var fyrir að flugsamgöngur myndu lokast. Því ákvað faðirinn einhliða að bóka flug fyrir barnið þann 19.mars en ekkert samkomulag ríkti milli foreldranna um þá tímasetningu.

Tveimur dögum fyrir flugið sem faðirinn hafði bókað, þann 17. mars, blandaði Jakob Frímann sér í málið en hann er vinur föður barnanna, auk þess sem hann er fyrrverandi starfsmaður utanríkisráðuneytisins. Hann var til að mynda um árabil sérstakur menningarfulltrúi í sendiráði Íslands í London.

Jakob Frímann sendi beiðni á utanríkisráðuneytið þar sem hann fer fram á að ráðuneytið útbúi liprunarbréf á ensku til að yngra barnið  gæti flogið út til að hitta föður sinn. Bréf Jakobs Frímanns er svo hljóðandi:

„Grafalvarleg staða blasir við ungum skjólstæðingi mínum úr fjölskyldunni. Hann þarf alveg bráðnauðsynlega að komast til föður síns sem býr XXXXX og á hann bókað þangað með Norwegian n.k. fimmtudag. Forsenda þess að hann fái landvist á XXXXX er að hann hafi meðferðis bréf frá ykkur þess efnis að hér liggi mikið við sem það gerir. Þetta er Barnaverndarmál, flókið og sorglegt en [barnið] er í miklum sálarháska. Ég bið þig senda mér bréf með texta á eftirfarandi nótum svo fljótt sem verða má.“

Undir þessum texta lét Jakob Frímann síðan fylgja með enskan texta sem hann taldi heppilegan í slíkt bréf og í honum er tekið fram að för barnsins sé með fullu samþykki móður þess, sem fór þá með lögheimili barnsins. Óhætt er að segja að viðbrögð ráðuneytisins hafi verið afar hröð.

Nokkrum klukkustundum síðar hafði ráðuneytið – sem á þessum tíma var drekkhlaðið verkefnum tengdum COVID – sent slíkt liprunarbréf til Jakobs Frímanns, með opinberum stimpli, bréf sem var orðrétt samhljóða tillögu Jakobs Frímanns. Það var gert án þess að kanna málið með nokkrum hætti, til dæmis var ekki kannað hvort að samþykki móður lægi fyrir eða hvort um barnaverndarmál væri að ræða. Þá var skyldleiki Jakob Frímanns við barnið ekki rannsakaður en hann er ekki á nokkurn hátt skyldur barninu þrátt fyrir að halda því fram í bréfinu að hann sé ættingi.

Samkvæmt heimildum DV var móðurfjölskyldu barnsins verulega brugðið þegar hún komst að tilvist bréfsins. Í kjölfarið óskaði móðir eftir upplýsingum um aðdragandann og þá komst upp um þátt Jakobs Frímanns. Móðurfjölskyldan er verulega ósátt við aðkomu hans, sérstaklega þar sem að margt í bréfinu stóð er ósatt og hafi það verið útbúið í þeim eina tilgangi að koma barninu ólöglega úr landi.

Í kjölfarið leitaði móðir drengsins til lögfræðings sem sendi bréf á ráðuneytið í marslok þar sem skýringa var krafist. Viðbrögð ráðuneytisins voru dræm en með þrýstingi neyddist þó ráðuneytið til þess að grípa til aðgerða og þann 28. apríl 2020 var bréf sent á föður drengsins þar sem mistökin voru leiðrétt.

Áðurnefnt liprunarbréf var afturkallað og fékk Jakob Frímann sent afrit af þeirri ákvörðun.

Um miðjan maí var síðan komið á fundi innan ráðuneytisins með móðurinni þar sem að farið var yfir feril málsins og hvernig það megi vera að afgreiðslan hafi verið með þessum hætti. Niðurstaðan var sú að ráðuneytið baðst formlega afsökunar á málinu en jafnframt tilkynnt að ráðuneytið myndi ekki aðhafast frekar. Forsvarsmenn ráðuneytisins útskýrðu að ekki væri hægt að kæra Jakob Frímann fyrir skjalafals þar sem hann hefði ekki falsað undirskrift móður í bréfinu heldur einungis sagt ósatt til um samþykki hennar fyrir ferð á þessum tímapunkti.

Málið sat verulega í móðurfjölskyldunni, hvernig þjóðþekktur einstaklingur og fyrrverandi starfsmaður ráðuneytisins hafi að hennar mati notfært sér stöðu sína og beitt sér til að fá slík gögn frá hinu opinbera. Í lok árs 2020 hafði móðirin samband við lögregluna og óskaði eftir rannsókn á háttsemi Jakobs Frímanns þar sem hún álítur hann hafa framið hegningalagabrot með blekkingum í bréfinu til ráðuneytisins og er málið enn til skoðunar hjá lögreglu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort ákæra verður lögð fram.

Yfirlýsing Jakobs Frímanns vegna málsins:

Undirritaður brást við beiðni um aðstoð frá nánum vinum á miklum óvissutímum í mars 2020. 

Barn sem er fórnarlamb harðvítugrar forræðisdeilu var með skriflega heimild frá lögfræðingi móður sinnar um að mega heimsækja föður sinn í fjarlægu landi, kominn með farmiða í hendur og tilbúinn til farar þegar í ljós kom að þær aðstæður kynnu að skapast að honum yrði vísað aftur heim við lendingu eftir 5 tíma flug. Í ljósi þessa var mér ljúft og skylt að aðstoða við útvegun liprunarbréfs er tryggja myndi að tekið yrði á móti drengnum á áfangastað á Spáni og honum hjálpað að ná langþráðum endurfundum við föður sinn.

Eins og gögn málsins sýna var til staðar skýr vilji móðurinnar til að heimila umrædda ferð. Hins vegar snerist henni hugur og drengnum var meinað að hefja för. Ferðin var sumsé ekki farin, liprunarbréfið  afturkallað og við tók mikið sorgarferli og óvissutími fyrir drenginn sem leiddi til inngrips Barnaverndarnefndar.

Aldrei hefði mig órað fyrir því að viðleitni mín til að hjálpa þessu fólki að koma barni klakklaust á leiðarenda skyldi leiða til þess sem mér berst nú til eyrna fyrsta sinni frá blaðamanni DV. 

Ekki fæst séð að nokkur glæpur hafi verið hér framinn, því síður neins konar „skjalafals“,  hvað þá að nokkur skaði hafi hlotist af.  

Ég á þó ósk heitasta að heilar sættir náist í þeirri hörðu fjölskyldudeilu sem hér um ræðir enda eru aðilar aðilar málsins mér afar kærir.

Akureyri 8. september 2021

Jakob Frímann

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands mótmæla Coda Terminal – „Allt of mörgum spurningum er ósvarað“

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands mótmæla Coda Terminal – „Allt of mörgum spurningum er ósvarað“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Örn vill að borgin setji lóðaleigu á flugvöllinn – „Þeir rændu þá besta mannvistar- og byggingarsvæði Reykvíkinga“

Örn vill að borgin setji lóðaleigu á flugvöllinn – „Þeir rændu þá besta mannvistar- og byggingarsvæði Reykvíkinga“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka