Héraðssaksóknari hefur ákært konu fyrir sérlega hættulega líkamsárás sem á að hafa átt sér stað í Blesugróf vorið 2020. Konan er sögð hafa veist að manni á heimili sínu og slegið hann með kylfu „eða álíka áhaldi“ í höfuðið með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund í stutta stund og fékk sár á ennið, skurð á höku, mar á vör og yfirborðsáverka víðs vegar um líkamann.
Fólkið sem í hlut á er tæplega fimmtugt. Þess er krafist að konan verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Maðurinn sem varð fyrir meintri árás er með einkaréttarkröfu á konuna um skaðabætur að fjárhæð rúmlega 3,6 milljónir króna.
Konan hefur áður hlotið dóm fyrir umferðarlagabrot og þjófnaði.
Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur síðastliðinn föstudag.