Þórhildur Gyða Arnarsdóttir, sem greindi frá meintri árás og áreitni knattspyrnumannsins Kolbeins Sigþórssonar á skemmtistaðnum B5 fyrir fjórum árum, hefur kært lögmanninn Sigurð G. Guðjónsson til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Persónuverndar og úrskurðarnefndar Lögmannafélags Íslands. RÚV greinir frá.
Kæran er tilkomin vegna þess að Sigurður G. birti á Facebook-síðu sinni myndir af lögregluskýrlu úr sakamálinu, sem síðar var fellt niður eftir að aðilar máls náðu samkomulagi um greiðslur bóta.
Sigurður sagðist í samtali við fréttastofu RÚV ekki hafa séð kærurnar og hann hefði það fyrir reglu að tjá sig ekki um eitthvað sem hann hefði ekki séð.
Segja má að lögmaðurinn hafi varpað sprengju inn í íslenskt samfélag með birtingu gagnanna. Eins og DV fjallaði um var hann meðal annars harðlega gagnrýndur fyrir drusluskömmun en hann dró fram gamansamt tíst Þórhildar á Twitter um ástarmál sín.
Í kjölfarið steig Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Þórhildar Gyðu, fram og sagðist skoða það alvarlega að kæra Sigurð G. fyrir birtinguna, sem nú hefur gengið eftir.