Fyrr í dag var greint frá því að lögmaður Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur, Gunnar Ingi Jóhannsson, hefði kært Sigurð G. Guðjónsson til lögreglu, Persónuverndar og úrskurðarnefndar Lögmannafélags Íslands.
Kæran er tilkomin vegna þess að Sigurður G. birti á Facebook-síðu sinni myndir af lögregluskýrslu úr sakamálinu, sem síðar var fellt niður eftir að aðilar máls náðu samkomulagi um greiðslur bóta.
Sjá einnig: Þórhildur Gyða kærir Sigurð G. Guðjónsson til lögreglu, Persónuverndar og LMFÍ
Sigurður hefur nú tjáð sig um kærurnar á Facebook-síðu sinni en hann kveðst ekki hafa séð téðar kærur þrátt fyrir að fjölmiðlar hafi nú þegar greint frá þeim.
„Sérkennileg eru þau hins vegar þessi vinnubrögð hins hugsandi lögmanns að birta kærurnar fyrst fyrir fréttamönnum Ríkismiðilsins. Þeir koma ekki fram fyrir mína hönd. Þá hefur það heldur aldrei verið talin góð latína hvað rannsókn sakamála varðar að upplýsa opinberlega um sakargiftir. Slíkt getur spillt rannsóknar hagsmunum,“ segir Sigurður í færslunni og sakar Gunnar um að vera í einhverskonar áróðursstarfi fyrir Þórhildi Gyðu.
Hann leiðréttir þann misskilning að hann fái laun fyrir að sitja í áfrýjunardómstóli KSÍ en það er sjálfboðaliðastarf. Hann harmar það að Gunnar hafi ekki getað fengið þetta staðfest hjá framkvæmdastjóra KSÍ.
Hann segir það ekki vera ólögmætt og saknæmt að hann þekki foreldra Kolbeins Sigþórssonar sem greiddi Þórhildi Gyðu og Jóhönnu Helgu Jensdóttur skaðabætur fyrir ofbeldi sem á að hafa átt sér stað á skemmtistaðnum B5.
„Þó útskúfunarmenning sé rík í samfélaginu í dag vona ég að þorri fólks sé enn þannig þenkjandi að það sé ekki saknæmt og ólögmætt að umgangast og vinna fyrir þá sem tengjast þeim sem sakir eru bornar á. Lögmaðurinn man vonandi eftir stjórnarskrárákvæði sem býður efnislega að sérhver er saklaus uns sekt er sönnuð. Þar er líka að finna ákvæði sem mælir fyrir um að allir eigi rétt á að fá skorið úr um sekt eða sakleysi fyrir sjálfstæðum og óháðum dómi. Lögmaður veit vonandi að ríkisfjölmiðillinn er ekki hluti dómskerfisins,“ segir Sigurður í færslunni.
Hann segist ekki ætla að svara kærunni sem Gunnar sendi til lögreglu þar sem hann fær réttarstöðu sakbornings og þarf þar af leiðandi ekki að svara. Hann getur þó svarað Persónuvernd og Lögmannafélaginu, ef hann nennir.
„Kannski vill lögreglan gera húsleit taka afrit af tölvupóstum og gögnum skrifstofunnar. Þar er ekkert að finna enda fékk ég skýrslur vegna kæru Þórhildar Örnu afhentar í ljósrit,“ segir Sigurður og ætlar ekki að uppljóstra því hver afhenti honum lögregluskýrslurnar.