Fréttablaðið skýrir frá þessu. Haft er eftir Maríu að það sé mjög góð tilfinning að hafa unnið málið. Nú hafi hluti réttlætisins náð fram að ganga en tvö fyrri brot, sem hún kærði Heiðar fyrir, fyrndust á meðan rannsókn lögreglunnar stóð yfir. „Þetta er náttúrlega bara fyrst og fremst léttir og viðurkenning á að það hafi verið brotið gegn mér, þannig að það er gríðarlega mikil ró að vera búin að klára þetta eftir fjögurra ára baráttu. Maður hefur þessa tilfinningu að ég náði réttlætinu að hluta til. Ég náði því náttúrlega ekki að öllu leyti, en það er rosalegur léttir eftir fjögurra ára streð,“ sagði María.
Að sögn Maríu hótaði Heiðar Már að senda nektarmyndir af henni til vinnuveitenda hennar. Í dómi Landsréttar er litið til þess að brot Heiðars Más beindust gegn fyrrverandi sambýliskonu hans. Við mat á upphæð miskabóta var horft til þess að brotin földu í sér brot gegn friði og persónu hennar sem gátu verið til þess fallin að vekja hjá henni ótta um velferð sína.
María er meðal níu kvenna sem hafa kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir að hafa brotið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar. María kærði til lögreglu í desember 2017 þrjú ofbeldisbrot sem hún kveðst hafa orðið fyrir af hendi Heiðars Más. Um tvær meintar líkamsárásir, sem áttu sér stað í febrúar og júlí 2016, var að ræða og hótun sem barst henni í maí 2017. Hótunina setti Heiðar Már fram eftir að hann komst að því að María ætlaði að kæra ofbeldið.
Líkamsárásarbrotin fyrndust á meðan á rannsókn lögreglunnar stóð vegna þess að lögreglunni láðist að kynna sakborningi sakarefnin en það varð til þess að málið var fellt niður og fór ekki fyrir dóm. María bíður nú niðurstöðu Mannréttindadómstólsins en ríkið hefur fengið frest fram í október til að skila inn athugasemdum vegna málsins.