Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að SÁS geri þá kröfu að lögreglan rannsaki starfsemi Háspennu og HHÍ og benda samtökin á að í undanþáguákvæðum sem HHÍ starfar eftir séu engar heimildir til að útvista rekstri spilakassa.
Það er refsivert að gera sér fjárhættuspil að atvinnu hér á landi og með því að afla sér tekna með því að láta fjárhættuspil fara fram í húsnæði viðkomandi.
Það er Háspenna sem rekur spilakassa á vegum HHÍ og segir í kæru SÁS að Háspenna hafi haft „ríflegar tekjur af starfsemi sem hugsanlega er bæði ólögmæt og refsiverð“.
Segja samtökin að samkvæmt ársreikningi Háspennu fyrir árin 2018 og 2019 hafi tekjur fyrirtækisins verið um 345 milljónir. Einnig benda samtökin á að rekstur Háspennu sé flokkaður sem fjárhættu- og veðmálastarfsemi í fyrirtækjaskrá.