„Ég dreg það besta, og versta úr fólki. Nú verð ég hér með vini mínum Kimmo, og við ætlum að meðhöndla til að láta þér líða betur,“ segir hann í myndbandinu.
„Við eigum lausa tíma, svo komdu og hittu mig. Kannski get ég hjálpað,“ segir Jóhannes þá að lokum.
Í apríl sagði DV frá því að Jóhannes hafi opnað meðferðastöðina Útlagann, aðeins réttum fjórum mánuðum eftir að hann var dæmdur fyrir nauðganir sem hann framdi á nuddbekk sínum á meðferðarstöð sinni Postura. Á vefsíðu Útlagans var það tekið fram að meðferðin væri fyrir karlmenn með stoðkerfisvanda.
Í samtali við DV eftir opnun Útlagans sagðist einn þolandi vera orðlaus yfir opnuninni.
Þetta er siðleysi í hámarki og sýnir hversu mikil vanvirðingin er í garð fórnarlamba hans og hversu sama honum er um skaðann sem hann hefur valdið. Kannski sýnir þetta best hversu mikið skítsama honum er um dómstóla landsins. Hvernig í ósköpunum er kerfið svona brenglað að ekki er hægt að stoppa raðnauðgara þegar hann er að leggja upp í næstu gildru? Hvað segir heilbrigðiseftirlitið? Landlæknir?
Sem fyrr segir var Jóhannes dæmdur í byrjun janúar fyrir fjórar nauðganir og hlaut fimm ára fangelsisdóm. Málinu var áfrýjað.
Samkvæmt dagskrá Landsréttar er sú áfrýjun á dagskrá nú í byrjun október.
Jóhannes var upphaflega kærður af tugum kvenna en öll málin nema fjögur látin niður falla. Mál Ragnhildar Eikar Árnadóttur var eitt þeirra. Ragnhildur, sem sjálf er lögfræðingur og starfar nú sem slíkur í Kaupmannahöfn, steig fram opinberlega í viðtali við Stundina síðasta sumar þar sem hún lýsti upplifun sinni af rannsókn málsins, viðbrögðum lögreglu og sagðist óa við því að Jóhannes væri enn að meðhöndla ungar konur.
Ragnhildur gekk á eftir máli sínu af nokkurri hörku, kærði niðurfellingu málsins til Ríkissaksóknara sem beindi því til Héraðssaksóknara að endurskoða málið, sem varð raunin. Héraðssaksóknari hefur nú gefið út ákæru í máli Ragnhildar og mun því Jóhannes þurfa að svara fyrir fimmtu nauðgunina í Héraðsdómi Reykjaness nú í haust.
Í kjölfar ákvörðunar Héraðssaksóknara steig Ragnhildur aftur fram í viðtali í Stundinni og sagðist vilja að fjallað yrði um málið fyrir opnum tjöldum í héraðsdómi. Enn liggur ekki fyrir hvort af því verði, en kynferðisbrotamál eru almennt afgreidd fyrir luktum dyrum með það að markmiði að verja hagsmuni þolenda í málunum. Ragnhildur þurfti því sérstaklega að óska eftir því að þinghaldinu yrði ekki lokað.
Í samtali við DV segir Ragnhildur fréttir af „útrás“ Jóhannesar til Svíþjóðar hafa valdið henni vanlíðan. „Mér leið, og líður, vægast sagt ömurlega. Ég var bæði reið og hrædd og í mikilli geðshræringu,“ segir Ragnhildur. „Tilhugsunin um að hann sé mættur til annars lands þar sem enginn þekkir til andstyggilegrar sögu hans, þar sem hann getur óheft og án eftirlits brotið á nýjum skjólstæðingum, vekur gífurlegan óhug hjá mér.“
Ragnhildur vísar þar til áðurnefnda dóma hans og bendir á að fimmta nauðgunarmálið, málið sitt, verði tekið fyrir eftir mánuð. „Ég skil eiginlega ekki hvers vegna ekki þykir stafa hætta af manni eins og honum, sem ítrekað hefur brotið af sér í skjóli starfs síns svo árum skipti. Þess í stað er hann frjáls ferða sinna og heimilt að halda starfi sínu ótrauður áfram, hvar sem er í heiminum, á meðan hann bíður eftir dómi Landsréttar. Mér finnst þetta hræðilegt.“
Ragnhildur segist hafa verið í sambandi við eina af þolendum Jóhannesar og að hún hafi fengið veður af myndbandinu af Jóhannesi frá henni. „Okkur líður báðum gjörsamlega ráðalausum og hjálparvana. Við viljum svo innilega koma í veg fyrir frekari afbrot, fleiri þolendur og meiri harmleik,“ segir Ragnhildur að lokum.
Myndband Jóhannesar má sjá hér að neðan.
View this post on Instagram