Svona hefst færsla sem Guðrún Erla Ottósdóttir skrifar og birti á Facebook-síðu sinni í dag. Í færslunni talar Guðrún um hræðilega reynslu sem hún þurfti að ganga í gegnum og gagnrýnir meðal annars geðdeild Landspítalans harkalega. Guðrún veitti leyfi til að fjalla um færsluna og segir í samtali við blaðamann að sem flestir þurfi að heyra það sem kom fyrir hana.
Guðrún hefur færsluna á því að segja frá sorglegri lífsreynslu en fyrir 5 árum síðan fæddist dóttir hennar andvana eftir fulla meðgöngu. Hún vissi að eitthvað væri að tæpri viku fyrir fæðinguna og leitaði hjálpar en fékk hana ekki.„Á hverjum degi í sex daga áður en þetta gerist leitaði ég margoft upp á kvennadeild LHS, þar sem mér var ítrekað vísað frá og ekki sett í mónitor. Daginn áður en hún deyr í móðurkviði kemur barnsfaðir minn með mér uppá kvennadeild og krefst þess að málið sé skoðað, okkur er aftur vísað frá og honum tjáð að ég sé bara móðursjúk,“ segir Guðrún.
„Daginn sem hún deyr byrjar á því að ég mæti í vinnuna og finn ennþá hreyfingar en finn samt að eitthvað er að svo seinni partinn kem ég heim og sofna með eldri dóttir okkar. Svo vakna ég stuttu seinna og finn að það er einhvað að. Móðir mín kemur og sækir mig og skutlar mér að sækja bílinn okkar sem var í viðgerð hjá frænda mínum. Ég nefni þetta við hana á leiðinni en var á þessum tíma farin að trúa því að ég væri móðursjúk enda einu ári áður misst barn eftir 5 mánaðar meðgöngu móðir mín segir mér að kíkja við upp á kvennadeild sem ég geri það. Þar eftir ansi langa bið kemur ljósmóðir og vísar mér inn á herbergi. Svo kemur hún með hjartsláttarnema og leitar í nokkra stund eftir hjartslætti sem hún finnur ekki. Hún segir mér að þetta sé alveg eðlilegt en vill kalla til aðra ljósmóðir hún kemur inn og fer líka að leita eftir hjartslætti en finnur hann ekki.“
Önnur ljósmóðirin gerir sér þá grein fyrir því að það sé eitthvað að og kallar til lækni sem mætir skömmu síðar með sónartæki. Hann setur það á maga Guðrúnar og segir samstundis „þetta er búið, hún er dáin“. Við þetta fraus Guðrún í nokkra stund, hún vildi ekki trúa þessu. „Hann sagði mér að þetta væri alveg öruggt og að ég mætti sjá það aftur. Þarna panikkaði ég og tárin fóru að streyma ég fann ennþá hreyfingar (svo kallaðar draugahreyfingar) ég vildi ekki trúa þessu hún var lifandi um daginn það er ég viss um.“
Guðrún bað lækninn og ljósmæðurnar um að bjarga henni en henni var sagt að þetta væri búið og í kjölfarið var hún spurð hvort hún vildi hringja í einhver. „Ég var alveg stjörf, í hvern átti eg að hringja og segja hvað?? Ég tek við símanum og hringi í manninn minn sem var heima með eldri dóttir okkar. Ég grét svo mikið að ég rétt náði að segja: „Unnur Ýr er dáin“. Svo langaði mig bara að komast þarna út,“ segir hún.
Eftir þetta fór hún út í myrkrið og hljóp af stað, hún hugsaði að þetta hlyti að vera martröð. „Þegar ég kem heim sagði faðirinn að spítalinn hafi hringt og sagt að við yrðum að fara aftur upp á spítala. Mig langaði ekki til þess langaði bara að þessi hræðilega martröð tæki enda. En hann segir að það sé mikilvægt að við drífum okkur því að það sé hættulegt að vera með stelpuna okkar látna í móðurkvið.“
Guðrún segir að á þessum tímapunkti hafi hún verið frosin. Hún mætti upp á kvennadeild og þar mætti henni ljósmóðir sem sagði strax að það væri best að fæða stelpuna. „Ég var hrædd týnd og áttavillt. Nei ég gat ekki hugsað mér það. Þá eru mér gefin róandi lyf og hún heldur áfram að sannfæra mig um að fæða hana. Hún hlaut að vita allt það sem væri best?? Þannig ég samþykkti það
Þarna er mér gefið lyf sem koma fæðingu af stað. Ég var svo hrædd og týnd.“
Hún segir að hún muni aldrei gleyma andrúmsloftinu þarna inni. Ung stelpa sem var ljósmæðranemi kom inn til þeirra, Guðrún segir að stelpan hafi ekki getað horft á þetta og að hún muni aldrei gleyma svipnum hennar. „Eftir dágóða stund hefst rembingsstig fæðingar, ég finn að hún myndi koma fljótt eins og eldri dóttir mín. Ég klemmdi saman lappirnar og gat ekki leyft henni að koma.“
Guðrún vildi fá prest til að blessa yfir dóttur sinni þegar hún myndi fæðast og það var því náð í prestinn á sjúkrahúsinu. „Þarna gat ég ekki meir, hún kemur í heiminn blá með naflastrenginn tvívafinn um hálsinn og hnútur á. Þá fæ ég hana í fangið, svo fullkomna og fullskapaða. Ég horfi á hana ég veit ekki hvað lengi og vonaði af öllu hjarta að hún myndi opna augun. Langaði að gefa henni brjóst bara eitthvað. En hún var dáin.“
Guðrún og barnsfaðir hennar fengu sólarhring með dóttur sinni en Guðrún gat ekki sleppt henni. „Okkar nánustu komu og fengu að sjá hana, sorgin í augum ástvina okkar var ólýsanleg. Starfsfólk kom inn og hvatti okkur til að leggja hana frá okkur í kæli vögguna en ég bara gat það ekki. Hún var byrjuð að fá sár eftir þennan tíma en ég gat ekki sleppt þetta hlaut að vera vondur draumur plís vaknaðu fallega Unnur Ýr góði guð af hverju.“
Eftir þetta tók við mjög erfiður tími fyrir Guðrúnu. Hún þurfti að taka erfiðar ákvarðanir á erfiðum tíma. „Vildum við að hún yrði krufin? Hvernig átti skírnin að vera og svo útförin?“
Urður Ýr var jarðsungin og skírð í Fossvogskirkju. „Svo fengum við leyfi frá ömmu til að jarða hana hjá afa, ég vildi ekki að hún væri ein. Ég gleymi aldrei hvað það var erfitt að þurfa að skilja hana eftir og labba út með tóman stól, þetta voru þung skref. Svo þegar heim var komið var allt tilbúið, það hafði ekki einu sinni krossað hugan okkar að þetta færi svona.“
Þegar jarðarförinni var lokið var ekkert sem greip Guðrúnu og barnsföður hennar. „Eftir útförina fóru allir auðvitað að sinna sínu lífi en við vorum í rusli og litla hjálp að fá,“ segir hún en 6 dögum eftir jarðarförina fór Guðrún að líða illa um nóttina.
„Snemma um morguninn stóð ég upp og það fossblæddi og það leið yfir mig. Maðurinn minn hringdi á sjúkrabíl sem kom snögglega. Ég var flutt upp á kvennadeild þar fer ég í skoðun sem leiðir í ljós að stór partur af fylgjunni hafi orðið eftir. Ég fer í aðgerð þá um nóttina sem var víst mjög flókin og erfið en enginn sérfræðingur var kallaður til. Svæfingalæknirinn sagði að þetta hafi verið mjög mikil aðgerð.“
Þegar Guðrún vaknaði eftir aðgerðina fann hún að eitthvað var að, það blæddi svakalega og hún var með mikla verki. Hún segir að móðir sín, systir sín og hjúkrunarfræðingurinn sem var á vakt hafi allar reynt að fá lækninn sem var þarna til að kalla út sérfræðing. Læknirinn sagði alltaf við þær að þetta væri í góðu lagi.
„Ég var ekki tengd við lífvara né annað. Svo seinna þarna um kvöldið var mér farið að líða mjög illa en ennþá vildi hún ekki kalla út sérfræðing.“
Seint um kvöldið var enginn að fylgjast með Guðrúnu, þá allt í einu líður yfir hana og hún fer í dá. „Mamma mín og systir hlaupa fram og kalla að það þurfi neyðarteymi strax.“
Guðrún man að sjálfsögðu ekki sjálf eftir þessum hluta. „Mamma og aðrir sögðu mér að fólk hafi komið hlaupandi alls staðar frá, sett rúmið á mitt gólf og dælt inn í mig blóði í fætur og hendur og fleira en ég lá dáin á borðinu hjá þeim í þó nokkuð langa stund.“
Sem betur fer báru endurlífgunartilraunirnar árangur og farið var með Guðrúnu beint í aðra stóra aðgerð. Hún vaknaði svo á gjörgæslu, var þar í 4 daga og var svo færð á venjulega deild í um tvær vikur. „Þessar vikur voru mjög erfiðar, nýbúin að missa dóttir mína og munaði litlu að ég færi líka. En mér fannst mjög erfitt að vera frá eldri dóttur minni.“
Guðrún segir að þegar heim var komið hafi ekkert tekið við. „Við reyndum að óska eftir hjálp en takmarkað var í boði. Þarna tók við mikið sorgartímabil hjá okkur og mikil reiði,“ segir Guðrún og hún gat ekki skilið hvernig þetta gat allt saman gerst. „Bara ef þau hefðu hlustað.“
Hún segir þetta hafa orðið til þess að hún og barnsfaðir sinn skildu stuttu síðar.
Guðrún fékk hræðilegar martraðir eftir þessa hræðilegu lífsreynslu. Martraðirnar voru um þessi atvik en einnig kom upp hræðsla við að missa þá sem eru henni nánastir. „Ég hrökk upp grátandi. Stundum hrópandi. Og var farin að hræðast það að fara sofa,“ segir Guðrún en hjálpin sem hún fékk þá var einungis í formi svefnlyfja. Þá upplifði hún mikinn kvíða og fékk bara lyf við því. Næst komu þunglyndislyfin og fleiri lyf en engin hjálp.
„Þessar martraðir hættu ekki, ég fæ þær ennþá í dag. Þolið mitt fyrir að taka svefnlyf varð meira og var ég farin að taka það meira en ráðlagt var, bara til að sofa eitthvað yfir næturnar.
Þetta var í raun ekkert að laga.“
Guðrún segir að nýverið hafi fjölskylda hennar hvatt hana til að leita sér hjálpar til að losna við þessa vanlíðan og vonlausa svefnmynstrið. „Ég þáði það eftir smá umhugsun. Þá fór ég á deild sem er kölluð bráðageðdeild,“ segir hún.
„Þegar ég kom þangað inn var mér mjög brugðið. Þarna var hrópandi fólk, grátandi börn og maður fann fyrir andstyggð margra starfsmanna. Það var talað ljótt við sjúklinga, ég fékk bara eitthvað smá að borða og ég sem kom sjálf til að vinna i mínum málum var núna föst þarna. Ég var mjög hrædd.“
Guðrún segir að einn sjúklingurinn hafi hrópað í sífellu og að hún hafi fundið til með henni, hana langaði að segja eitthvað við hana svo henni myndi líða betur. „En ég mátti ekki fara út af herberginu. Ég fékk vatn og smá mat. Ég var svöng, hrædd og ringluð. Þegar að ég fékk svo að fara fram þá byrjaði einn sjúklingurinn að elta mig og segja mér að hann væri vondur maður og hefði margt misjafnt gert. Ég hélt mig að mestu inn á herbergi en leið mjög illa að heyra konu greyið hrópa og hrópa og heyra að henni var svarað á ljótan hátt.“
Um kvöldið ákvað Guðrún að fara fram í setustofuna og horfa á sjónvarpið. Þá kom maðurinn sem hafði verið að elta hana og fór að strjúka henni á bakinu og öxlunum. „Mér fannst þetta virkilega óþægilegt þannig að restina af kvöldinu var ég inn á herbergi. Mér voru gefin nokkur lyf þarna um kvöldið sem ég þekkti ekki. Ég spurði hvað þetta væri, þá svarar starfsmaðurinn það er bara best fyrir þig að borða þetta. Ég gerði það trúandi því að þetta væri eitthvað til að hjálpa mér.“
Guðrún varð mjög ringluð af lyfjunum og henni leið illa en hún náði að sofna. Hún vaknaði svo um nóttina við mikla skelfingu, henni leið eins og eitthvað hræðilegt hafði gerst. „Ég ráfaði fram í sjokki, grét og grét og var mjög ringluð. Þá kom starfsmaður sem vildi gefa mér meira af lyfjum. Það vildi eg alls ekki. Ég bað um að fá að jafna mig i friði sem ég gerði en var samt mjög skelkuð. Ég fór aftur upp í. Um morguninn fóru nokkrir sjúklingar af deildinni niður en þar má reykja á tveggja tíma fresti á daginn. Þarna niðri byrjaði sami maður aftur að strjúka mér og segja ógnandi og óviðeigandi hluti, ég var mjög hrædd.“
Guðrún hélt sig eftir þetta alveg inni á herberginu sínu þar til henni var loksins boðinn tími hjá lækni. „Ég sagði lækninum að mér liði mjög illa. En hún gerði lítið úr því. Og fór að tala um hvort ég hefði verið rænulaus að keyra um með börnin mín og annað slíkt sem er nú ekki raunin því í fyrsta lagi er ég ekki rænulaus með börnin mín. Og keyri ekki bíl.“
Hún segir að læknirinn hafi gert lítið úr sér sem móður og að hún hafi talað virkilega niður til sín. „Þarna var mér nóg boðið. Ég sagðist vilja fara. Þá byrjaði hún strax að hóta því að þá yrði barnaverndarnefnd kölluð til. Ég sagði henni að hún gæti ekki notað, mér best vitandi þetta ágætis fólk sem grýlu á mig. Enda hefði ég ekkert að fela og börnin mín voru í faðmi fjölskyldunnar og ég hefði ekkert að óttast. Þá sagði hún við mig að þau væri nú oft ekki sammála, og börnin væru bara samt tekin í þeirra umsjá.“
Við þetta hræddist Guðrún mikið og fékk taugaáfall. „Ég gat ekki verið þarna eina mínútu meir. Enda í miklu uppnámi og fannst þetta alls engin hjálp. Ég fór í sjokki af þessum fundi og hafði samband við lögfræðing fjölskyldunnar. Eftir einhverja samræðu kemur læknirinn og segir „Ókei þú verður þá flutt um deild“. Já takk. Allt frekar en að vera þarna.
„Meðan ég beið kom hádegismatur. Sem var eitthvað smotterí. Ég sá eina starfsstúlku fá sér eplaköku bita sem hafði komið með matnum upp. Ég fór skömmu seinna og tók lítinn bita og settist út í horn. Þá kemur starfsmaður og hundskammar mig fyrir að taka þennan bita. Þetta átti vist að vera kaffibrauð en ekki gat ég vitað það.Ég var miður mín. En sem betur fer kemur fljótt starfsmaður og segir mér að ég eigi að skipta um deild. Ég var hrædd, en var allavegana að komast þarna burt.
Guðrún segir að þegar hún var komin á hina deildina hafi yndislegt starfsfólk tekið á móti henni sem sýndi henni allt saman. „Þarna mátti borða. Þarna mátti hafa tilfinningar. Þarna vinnur yndislegt fólk sem leggur allt sitt að mörkun, svo að sjúklingunum líði sem best.“
Hún segir þessar tvær deildir vera eins og tveir aðskildir spítalar. „Ég er ennþá að ná mér eftir dvölina á fyrri deildinni, enda fékk ég símtal frá lögreglunni sem sagði mér að kona hafi hugsanlega verið myrt meðan ég var þar.
Í lokin spyr Guðrún hvort það sé ekki komið nóg af þessu. „Þessi spítali er löngu úrelt stofnun þar sem mesti óþverri sem ég hef kynnst er við lýði. Þarna eru ekki allir sjálfviljugir. Mér er nóg boðið, ég hef getað fyrirgefið allt í mínu lífi en ég mun aldrei fyrirgefa þeim að hafa ekki hlustað á mig, sem varð til þess að dóttir mín dó á þeirra vakt. Og svo miklu fleiri, því miður.“
Núna nálgast kosningar óðfluga og Guðrún segir alla lofa öllu fögru. „En flestir að ljúga eins og gosi, eða hvað? Hver ætlar að setja það i forgang að svona margir deyi ekki af gáleysi? Hver ætlar loksins að standa við það að þeir sem minnst mega sín svelti ekki? Hver ætlar að standa við það að allir hafi jafna möguleika á menntun? Hver ætlar að sjá til þess að börn komist beint inn á leikskóla eftir fæðingarleyfi? Leikskólar, grunnskólar til dæmis hádegismatur og framhaldsskólar eiga að vera fríir,“ segir hún.
„Veit ekki með aðra en mér er nóg boðið og ég ætla ekki að láta draga mig á asnaeyrunum lengur. Ég ætla ekki að taka þátt í þessum sirkus lengur. Ég hef ekkert til að skammast min fyrir. Skömmin er þeirra.“