Morgunblaðið hefur þetta eftir henni. Haft er eftir Katrínu að hluti af þeirri stöðu sem nú er uppi snúist um hvernig heilbrigðiskerfið sé undir það búið að takast á við faraldurinn. Aðgerðir hafi verið hertar á landamærunum til að reyna að koma í veg fyrir að ný afbrigði berist til landsins. Einnig sé verið að vinna að því að styrkja Landspítalann og flýta örvunarbólusetningum. Þetta sé gert til að halda veikindum í lágmarki og tryggja um leið gangvirki samfélagsins.
Einnig er haft eftir Katrínu að nauðsynlegt sé að endurmeta það sem áður hefur verið gert því ekki sé öruggt að sömu aðgerðir virki núna og áður en bólusetningar hófust. Nú þurfi að horfa til þess hvaða vernd bólusetning veiti gegn veikindum og það hljóti að kalla á nýja nálgun.
Í gær sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, að nú sé tímabært að reyna að ná fram hjarðónæmi gegn veirunni og því hyggist hann ekki leggja til harðar sóttvarnaaðgerðir.