Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Kamillu Sigríði Jósefsdóttur, staðgengli sóttvarnalæknis, að umframbóluefni frá Janssen, Moderna og AstraZeneca verði boðin öðrum ríkjum sem þurfa á þeim að halda. „Við áttum stóra samninga við Janssen og AstraZeneca, sem við ætlum sem sagt að bjóða öðrum,“ er haft eftir henni sem og að samningurinn við AstraZeneca hafi ekki verið mjög stór en enn sé svolítið eftir af honum.
Hún sagði að bóluefnin frá Janssen og AstraZeneca fari í COVAX sem er samstarfsverkefni um að útvega fátækum ríkjum bóluefni. Líklega muni umframbirgðir af Moderna fara til annarra Evrópuríkja sem hafa ekki náð samningum um bóluefni en njóta ekki ávinnings af COVAX.
„Við höfum ekki nógu góð gögn varðandi Janssen og Delta sérstaklega, en ef við horfum á það eða ekkert bóluefni, þá teljum við að það sé nú örugglega betra að fá Janssen heldur en ekkert bóluefni,“ sagði hún aðspurð um þá ákvörðun að senda bóluefni, sem við viljum ekki nota, til annarra ríkja. „Við erum ekki í þeirri stöðu að þurfa að horfa á Janssen eða ekkert, þannig að við gerum það sem við getum til þess að hafa þau bóluefni sem við teljum að nýtist okkur best og veiti sem besta vörn,“ sagði hún.
Þau bóluefni, sem öðrum ríkjum verða boðin, hafa ekki enn verið afhent hingað til lands en samið hefur verið um kaup á þeim.
Hvað varðar Janssen þá er talsvert magn til á lager hér á landi og er ekki hægt að senda það annað. „Það er ekki hægt að senda þá skammta annað en þeir munu sennilega nýtast okkur til þess að bólusetja einstaklinga sem við getum ekki tryggt að verði hér nógu lengi til þess að fá seinni skammt. Við munum ekki farga því, eða ég vona að það komi ekki til þess að við þurfum að farga. Það er með góðan fyrningartíma þannig að svo lengi sem við geymum það við viðeigandi aðstæður þá mun það nýtast okkur fram á næsta ár,“ sagði Kamilla.