DV hefur kært Landspítalann vegna synjunar um upplýsingar um bólusetningarstöðu þeirra sem leggjast inn á spítalann, bæði á gjörgæslu og á almenna Covid-19 deild, vegna veikinda af völdum Covid-19 sjúkdómsins.
Landspítalinn gaf það út í síðustu viku að þessar upplýsingar yrðu framvegis ekki veittar og hafa síðan synjað ítrekuðum óskum DV um slík tölfræðileg gögn. Þá hefur DV upplýsingar um það að öðrum fjölmiðlum hafi verið synjað um þessar upplýsingar.
Í röksemdarfærslu með kæru DV til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál segir meðal annars:
Óumdeilt er að upplýsingar um stöðu bólusetninga inniliggjandi sjúklinga á LSH eiga erindi við almenning. Um fátt annað er rætt þessa stundina en gildi, virkni og árangur bólusetningarátaks hins opinbera. Málið er í senn stærsta átakamál almennings og íslenskra stjórnmála, og hangir framtíð ákvarðanatöku stjórnvalda um svonefndar innanlandstakmarkanir, sem og aðgerðir á landamærunum, einmitt á því hvort hópur bólusettra á á hættu á að lenda inni á sjúkrahúsi eða gjörgæslu. Spurningin um hvort fólkið sem er að veikjast af völdum faraldursins sé bólusett eða ekki er því grundvallaratriði í upplýstri áframhaldandi umræðu um sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda.
Án slíkra upplýsinga er hætt við að geta almennings til þess að mynda sér sína eigin, sjálfstæða og upplýsta skoðun á aðgerðum stjórnvalda, sem margar hverjar takmarka grundvallarmannréttindi fólks til þess að koma saman, ferðast, fara út úr húsi, o.fl.,verði verulega takmörkuð.
Rök Landspítalans fyrir því að synja DV um umræddar upplýsingar snúa meðal annars að því að um persónugreinanlegar upplýsingar sé að ræða. Er því mótmælt í kærunni, enda aðeins tveir á gjörgæslu þegar ákvörðunin var tekin á aldrinum 40-70 ára, að því er kom fram í tilkynningu Landspítalans.
Á þeim tíma voru, samkvæmt upplýsingum á Covid.is, 86,2% þeirra sem þiggja máttu bólusetningu bólusettir og því gátu upplýsingarnar sem veittar voru átt við um 20 þúsund einstaklinga. „Það hlýtur að teljast fráleitt að ætla að upplýsingar sem geta átt við 20 þúsund einstaklinga séu sagðir persónugreinanlegar,“ segir jafnframt í kæru DV.
Þá voru slíkar upplýsingar veittar án athugasemda sjúklinga um skeið.
Er þess krafist að Úrskurðarnefnd um upplýsingamál geri Landspítalanum skylt að veita DV upplýsingarnar.