Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að á fyrri helmingi ársins hafi afföll af laxi, sem er alinn í sjókví hér á landi, verið 3.478 tonn. Þessar tölur er hægt að lesa á heimasíðu Matvælastofnunar (MAST) sem fær upplýsingar frá fiskeldisfyrirtækjunum. Út frá þessum upplýsingum er að sögn Fréttablaðsins hægt að reikna að 1.350.000 laxar hafi drepist í sjókvíum á fyrri helmingi ársins.
Af þeim drápust 400.000 í júní. Hlutfallslega drápust þrefalt fleiri laxar í sjókvíum í júní á þessu ári en á síðasta ári. „Það er engin ein skýring á þessu heldur er þetta sitt lítið af hverju,“ er haft eftir Gísla Jónssyni, dýralækni fisksjúkdóma hjá MAST, um orsakirnar. Hann sagði að afföll í seiðaflutningum og óvenjulega mikill kísilþörungablómi á Austfjörðum og Vestfjörðum í lok maí og byrjun júní eigi hlut að máli. „Aðalatriðið er að það séu engir smitsjúkdómar á ferðinni og það hefur ekkert slíkt komið upp en við tókum eftir því að þegar þörungarnir byrjuðu að láta á sér kræla þá urðu aukin aföll (sic) í kvíunum, þörungarnir fara svolítið illa í tálknin,“ sagði hann einnig.
Laxeldi hefur aukist mikið hér á landi á síðustu árum. Árið 2015 var framleiðslan 3.260 tonn en á síðasta ári var hún 34.341 tonn.