Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið. Fram kemur að 53% landsmanna séu ánægð með styttingu vinnuvikunnar á sínum vinnustað. Nokkuð jafnt hlutfall segist vera mjög ánægt eða frekar ánægt. Tæplega 21% er frekar eða mjög óánægt. Á vinnustöðum 21% svarenda hefur stytting vinnuvikunnar ekki enn verið innleidd.
Fram kemur að opinberir starfsmenn eru mun ánægðari með styttinguna en þeir sem starfa á almennum vinnumarkaði. 64% opinberra starfsmanna eru ánægðir en aðeins 44% starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Sérstaklega mikill munur er á milli þeirra sem segjast mjög ánægð en 40% opinberra starfsmanna eru í þeim hópi en 19% starfsmanna á almennum vinnumarkaði.
Úrtakið í könnuninni var 2.600 manns, 18 ára og eldri. Svarhlutfallið var 52% og voru svörin vegin eftir kyni, aldri og búsetu.