Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, sagði að staðan væri sérstök því verslunarmannahelgin hafi verið um liðna helgi og því kannski eðlilegt að sýnatökur hafi verið færri en í vikunni á undan en samt hafi mörg sýni verið tekin. „Maður hefur séð það á röðunum við Suðurlandsbrautina að fólk er að fara í sýnatöku, sem er jákvætt og við búumst við að í næstu viku muni bætast verulega í það. Tölurnar síðustu tvo daga eru kannski ekki alveg það sem við höldum að verði í næstu viku. Auðvitað vona allir hið besta en búast frekar við hinu versta,“ sagði hún. Hún sagði einnig að fólk sé undir það búið að smitin verði fleiri næstu daga en voru um helgina.
Hún sagðist telja að þróunin í næstu viku muni skýra enn frekar hverjir verða í áhættuhópum vegna Deltaafbrigðisins og þannig fáist skýr mynd af þessari fjórðu bylgju sem nú ríður yfir landið.